139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi mörkuðu tekjurnar tel ég betra að fjárlög ráði og afgangur, ef einhver er, gangi í ríkissjóð. Þá er ég í rauninni að segja að 1. gr. lokafjárlaganna ætti að vera óþörf. En auðvitað tekur langan tíma að breyta þessu og við þurfum að setja niður stefnu um markaðar tekjur og meðferð þeirra og jafnræði á milli stofnana hvað þetta varðar. Þetta á líka við um afgangsheimildir. Varðandi markaðar tekjur getur afkoman ráðið meiru en hvað stendur í fjárlögunum og þetta þurfum við að setja niður og tryggja jafnræði á milli stofnana.

Ég held að við getum ekki leyst þetta á nokkrum vikum, ég held að ákveðið ferli þurfi að eiga sér stað til að koma þessu í lag. En auðvitað hljótum við að vera sammála því að fjárlögin eiga að ráða en ekki hvernig málin með markaðar tekjur kunna hugsanlega að æxlast. Sama á við um afgangsheimildir og ef stofnanir fara fram úr heimildum eða eiga afgang. Þetta þurfum við að setja fastar niður þannig að aðilar viti að hverju þeir ganga.

Varðandi málefni landbúnaðarráðuneytisins er ég alveg sammála hv. þingmanni um að við þurfum að skoða það betur. Þar standa spurningar út af sem við þurfum að fá á hreint. Ég bind miklar vonir við skýrslu fjárlaganefndar en sú vinna er að hefjast. Ég trúi því að þar munum við geta nýtt okkur dæmi úr (Forseti hringir.) skýrslu Ríkisendurskoðunar til að bæta ferlið.