139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Nú er uppi mikil spunafréttamennska í fjölmiðlum sem hafa verið hallir undir valdastéttina á hverjum tíma, spunafréttamennska sem gengur út á það að snúa út úr orðum þeirra sem á einhvern hátt ógna ríkjandi valdhöfum og þeim hagsmunum sem þeir verja. Í gærkvöldi bjó Stöð 2 til spunafrétt um að ég íhugaði að stofna nýjan stjórnmálaflokk til höfuðs VG þegar ég sagðist aðeins vera að skoða ýmsa möguleika í stöðunni.

Í dag eru allir helstu fjölmiðlar að velta fyrir sér menntun hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar en hann lagði stund á þverfaglegt nám við Oxford-háskóla. Eins og svo oft gerist þegar kemur að því að þýða erlend heiti á þverfaglegu námi hefur hv. þingmaður ekki fundið heiti sem nær yfir fjölbreytnina í náminu. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur því notað fleiri en eitt heiti og er nú sakaður óbeint um að hafa sagt ósatt um menntun sína. Það mætti saka ansi marga íslenska menntamenn um ósannsögli þegar þeir hafa reynt að finna viðeigandi heiti á erlent þverfaglegt nám sem þeir hafa lagt stund á.

Frú forseti. Markmiðið með þessum vangaveltum um menntun hv. þingmanns er að reyna að draga í efa trúverðugleika stjórnmálamanns sem hefur áunnið sér virðingu almennings fyrir baráttu sína í Icesave-málinu.