139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir áhugaverðar umræður hér. Hins vegar langaði mig aðeins að koma upp í andsvar við hv. þm. Birki Jón Jónsson. Hann sagði áðan að ríkisstjórnin hefði skilað auðu hvað varðar kjör námsmanna, talaði þar sérstaklega um grunnframfærsluna sem hann virtist gefa í skyn að hefði ekki hækkað nokkurn skapaðan hlut í tíð þessarar ríkisstjórnar. (BJJ: Það sagði ég ekki.) Ja, það lá í orðanna hljóðan.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur grunnframfærsla námsmanna hækkað verulega. Hún hækkaði um u.þ.b. 20 þús. kr. milli áranna 2008 og 2009. Auk þess hefur verulega verið unnið í málefnum námsmanna, t.d. var í tíð núverandi menntamálaráðherra felld niður krafa um ábyrgðarmenn á námslánum. Það er ekki hægt að gera lítið úr því hvaða þýðingu það hefur fyrir jafnrétti til náms á Íslandi að námsmenn geti fengið lán án þess að eiga foreldra eða vini sem skrifa upp á víxil hvað það varðar.

Hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hefur einnig í ljósi efnahagsástandsins verið lögð veruleg áhersla á að koma til móts við stöðu skuldara með frystingum lána, fresti á einstökum afborgunum ásamt fleiri aðgerðum. Hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna er einnig í gangi umfangsmikil stefnumótunarvinna þar sem m.a. er verið að endurskoða framfærsluna, ríkisframlagið og hvort fara eigi í styrkjakerfi. Þetta er allt gert í samstarfi við námsmenn, stjórn lánasjóðsins og ráðuneytið. Ég bið fólk að gæta sanngirni í málflutningi sínum hérna.