139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst dálítið gott hjá stjórnarliðum að standa hér fyrir eins konar hópefli þar sem þeir koma hver á fætur öðrum og reyna að sannfæra hver annan um að ríkisstjórnin standi sterkt. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hæstv. utanríkisráðherra telur að ríkisstjórnin hafi styrkt sig enn frekar í sessi þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason (Gripið fram í: … frekar.) ákvað að hverfa frá stuðningi sínum við ríkisstjórnina og fylgdi þar í kjölfar tveggja annarra hv. fyrrverandi stjórnarliða, Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar.

Ég ætlaði að nefna annað í tengslum við umræðuna um vantraust, yfirlýsingar hæstv. innanríkisráðherra sem fram komu í þeirri umræðu þar sem hæstv. innanríkisráðherra lýsti sér sem verkstjóra í rannsókn efnahagsbrota á Íslandi í aðdraganda bankahrunsins. Þetta eru auðvitað merkilegar og alvarlegar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra vegna þess að það eru ár og dagar síðan ákæruvald íslenskra ráðherra var afnumið. Það er reyndar grundvallaratriði um grundvallarreglur réttarríkisins að ákæruvald starfi sjálfstætt. Ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að hann sé verkstjóri yfir rannsókn efnahagsbrota í aðdraganda bankahrunsins varðar það væntanlega ekki einungis þau mál sem sérstakur saksóknari hefur til rannsóknar heldur einnig aðrir saksóknarar, t.d. saksóknari Alþingis í landsdómsmálinu. Hæstv. ráðherra hefur auðvitað sjálfur af því pólitíska hagsmuni að tiltekin niðurstaða náist í því máli og því hefur verið haldið fram að í landsdómsmálinu hafi verið efnt til pólitískra réttarhalda. Yfirlýsingar hæstv. ráðherra gefa tilefni til að álykta að svo sé.

Ég tel, virðulegi forseti, að yfirlýsingar hæstv. innanríkisráðherra séu mjög alvarlegar og hljóti að þurfa að koma til alvarlegrar umfjöllunar á Alþingi.