139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fréttaflutningur af stjórnmálamönnum -- málstaður Íslands í ESB-umsóknarferli o.fl.

[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að leggja við hlustir þegar hv. stjórnarþingmenn tala hér. Ég vek athygli á því að í vel fluttri ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams var útlistað hver væru helstu verkefni ríkisstjórnarinnar. Það var tvennt, það voru sjávarútvegsmálin og það var að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Ég held að menn ættu aðeins að hugsa þetta. Það skyldi þó ekki vera að þetta héngi líka saman. Þegar ég kannaði það síðast var afkoma sjávarútvegsins góð (Gripið fram í.) og ef menn skoða, virðulegi forseti, ég hvet menn til að gera það, skoða ástandið í sjávarútvegsmálum almennt um heiminn, t.d. í Evrópusambandinu, erum við ein af fáum þjóðum, kannski sú eina, sem þarf ekki að greiða með sjávarútvegi. Að sjálfsögðu þarf hæstv. ríkisstjórn að gera eitthvað í því og kannski feta brautina sem Evrópusambandið gerir þegar kemur að afkomu sjávarútvegsins sem er atvinnugrein sem er styrkþegi hjá skattgreiðendum.

Virðulegi forseti. Ef til vill hangir þetta saman, kannski er þessi för ekki alveg í takt við ágæta ræðu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að við eigum að koma hér á friði og vinna saman, því að svo sannarlega hefur þessi málaflokkur verið notaður sem svipa á hina ýmsu aðila til að skapa ókyrrð og ófrið í landinu þegar draga þarf athyglina frá öðrum málum.

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að (Forseti hringir.) fylgjast með, ekki bara orðum heldur gerðum núverandi ríkisstjórnar. Ef menn mundu trúa orðum hv. (Forseti hringir.) þingmanna væri himnaríki á Íslandi. Þá er ég að vísa í orð (Forseti hringir.) hv. stjórnarþingmanna.