139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fyrirkomulag umræðu um störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er bagalegt við þennan lið, störf þingsins, þegar verið er að taka upp og efna til viðræðna við einstaka þingmenn úti í sal sem komast síðan ekki að í umræðunni til að svara fyrir það sem fram er haldið.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hélt því hér fram og gerði það sem í raun og veru er iðulega … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn forseta.)

Já, ég er að ræða um …

(Forseti (ÁRJ): Ekki efnisleg umræða undir liðnum um fundarstjórn forseta.)

Frú forseti. Ég er að ræða um fundarstjórn forseta.

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Takk. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir kom hér upp áðan og sakaði mig um að tala hér sjávarútvegsmál í ágreining og komst upp með það án þess að ég ætti þess kost, frú forseti, að svara fyrir mig. (Forseti hringir.) Að slá fram slíkri fullyrðingu án þess að færa … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Þetta er efnisleg umræða.)

Ég ætla að vona, frú forseti, að við þurfum ekki að endurtaka hér bjöllusólóið frá því sumarið 2009 þegar ég var rekin úr ræðustóli.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður ræði fundarstjórn forseta.)

Ég er að ræða fundarstjórn forseta, frú forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hefur farið að fundarstjórn.) (Gripið fram í: Þú hefur ekki …)

Má ég velja mér orð mín sjálf? Hversu langan tíma hef ég til að ræða fundarstjórn forseta?

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður hefur eina mínútu og hún er liðin.)

Er hún liðin? Þá vík ég úr ræðustóli en ég geri alvarlega athugasemd við þessa valdbeitingu forseta því að hér hefur þessi liður verið tilefni manna til efnislegra umræðna skipti eftir skipti þar sem stjórnarandstaðan hefur átt sjálfvirka aðkomu að efnislegum (Forseti hringir.) umræðum hér og ég fæ ekki að ljúka máli mínu og fæ ekki sjálf að velja mín eigin orð (Gripið fram í.) þegar ég er að ræða hér fundarstjórn forseta. (Forseti hringir.) Ég geri alvarlega athugasemd við þetta.