139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[11:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með þessu máli er verið að bregðast við vandamálum sem upp komu varðandi leiðsöguhunda í fjöleignarhúsum og er sannarlega ástæða til að þakka nefndinni og hæstv. ráðherra fyrir að bregðast við. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að það sé ekki bara óheppilegt fyrirkomulag gagnvart leiðsöguhundum heldur gæludýrahaldi almennt því að það hefur verið gengið of langt í breytingum á fjöleignarhúsalögunum á síðasta áratug með því að hafa það þannig að einn íbúi í stóru fjöleignarhúsi geti beitt neitunarvaldi í þessum efnum. Þess vegna flyt ég breytingartillögu um að aukinn meiri hluti eigi að setja reglur um gæludýrahald þannig að einn íbúi í húsi geti ekki komið í veg fyrir að aðrir geti sett reglur um það.

Ég þakka fyrir þær góðu undirtektir sem verið hafa við málið hjá formanni félags- og trygginganefndar og hv. þm. Pétri H. Blöndal í gær og fleiri þingmönnum sem að málinu hafa komið. Ég held að þetta sé einfaldlega meðalhóf (Forseti hringir.) og að við getum treyst því að aukinn meiri hluti í húsfélagi geti sett skynsamlegar reglur í þessu efni.