139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[11:23]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum að breyta lögum um fjöleignarhús, að vísu að litlum hluta sem snýr fyrst og fremst að hjálpar- og leiðsöguhundum. Þetta var tekið út úr vinnunni þar sem verið er að endurskoða fjöleignarhúsalögin vegna þess að það höfðu komið upp ákveðin mál þar sem fólk hafði lent í vandræðum með þessa hunda og ég fagna því sérstaklega hvað þingið hefur tekið vel á þessu máli og hv. félags- og tryggingamálanefnd því að hér er um mikið réttlætismál að ræða og einmitt eins og komið hefur fram í umræðunni mikilvægt mál til að auka sjálfstæði einstaklinga með fötlun, þeirra sem geta nýtt sér leiðsögu- og hjálparhunda. (Gripið fram í.) Ég treysti mér ekki til að taka þátt í hinni breytingartillögunni, einfaldlega vegna þess að hópur á vegum ráðuneytisins vann í því sambandi mjög vandað starf við að velja þá leið sem farin var. Ég vona að það mál verði einungis til góðs vegna þess að það er búið að bæta umgjörðina í sambandi við ágreining sem getur orðið í fjöleignarhúsum, bæði hvað þarf að vera á bak við samþykktir en ekki síður (Forseti hringir.) að hægt er að leita til úrskurðarnefndar ef ágreiningur er.

Ég fagna sérstaklega að þetta mál skuli vera að fara í gegn.