139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[11:28]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um fjölmiðlafrumvarp, fyrstu heildarlögin um fjölmiðla á Íslandi. Í frumvarpinu eru miklar réttarbætur fyrir blaða- og fréttamenn í þessu landi, ákvæði sem auka sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum fjölmiðla, bæta réttarstöðu blaða- og fréttamanna gagnvart málsóknum, vernda börn gegn auglýsingum og skaðlegu efni, tryggja gagnsemi eignarhalds á fjölmiðlum, auðvelda nýjum aðilum að hasla sér völl á fjölmiðlamarkaði og svo mætti áfram telja.

Menntamálanefnd gerði nokkrar breytingartillögur á frumvarpinu milli 2. og 3. umr. Ég nefni sérstaklega að fagfélag blaðamanna fær fulltrúa í fjölmiðlanefnd. Við leggjum til enn frekari styrkingu ákvæðis um ritstjórnarlegt sjálfstæði og leggjum fram hugmyndir til allsherjarnefndar um breytingar á lögum um meðferð sakamála til að bæta enn frekar vernd heimildarmanna í þessu landi.

Ég vil sérstaklega þakka þann skýra umbótavilja sem allir fulltrúar í menntamálanefnd sýndu í góðri vinnu sinni við þetta mál. Þetta er gott mál fyrir íslenska fjölmiðlamenn og það er enn betra mál fyrir skjólstæðinga þeirra sem eru almenningur í þessu landi.