139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[11:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi verða settar skýrar, lýðræðislegar grundvallarreglur um fjölmiðla þar sem tjáningarfrelsið verður haft í heiðri. Tryggð verður hlutlægni í frétta- og fréttatengdu efni ásamt því að tryggja betur stöðu blaðamanna, fjölmiðlamanna og heimildarmanna.

Vinnunni er hins vegar ekki lokið. Við eigum eftir að tryggja betur fjölbreytni með skýrum reglum um eignarhald og stuðning við staðbundna fjölmiðla og prentmiðla. Við eigum eftir að endurskoða stöðu RÚV og aðskilja samkeppnisrekstur betur frá almannaútvarpinu.

Afstaða og málflutningur þeirra sem talað hafa gegn frumvarpinu eru byggð á misskilningi og því miður vankunnáttu og fordómum (Gripið fram í.) á efni frumvarpsins. Þær efnislegu breytingar (Gripið fram í.) sem gerðar hafa verið á frumvarpinu eru til bóta. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Við stöndum hér í miðri atkvæðagreiðslu og menn koma upp og ræða atkvæðagreiðsluna.)