139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fundarstjórn.

[12:03]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í þessum deilum sem átt hafa sér stað heldur ræða fundarstjórn forseta og spyrja hana um dagskrána sem liggur fyrir fundinum. 16. mál á dagskrá þessa þingfundar er Stjórnarráð Íslands, heildarlög, stjórnarfrumvarp. Eftir því sem ég best veit var það frumvarp afgreitt úr ríkisstjórn í ágreiningi. Ég veit ekki betur en að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hafi lýst andstöðu sinni við frumvarpið og að hæstv. innanríkisráðherra hafi gert athugasemdir og fyrirvara við það. Í orðabók minni eru stjórnarfrumvörp öll þau frumvörp sem ríkisstjórnin flytur og leggur fram, en svo virðist ekki vera í þessu tilviki. Mig langar því til þess að spyrja hæstv. forseta hvort 16. mál á dagskrá fundarins, Stjórnarráð Íslands, stjórnarfrumvarp, standi undir nafni eða hvort það eigi kannski frekar að flytja það sem þingmannamál.