139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:05]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum hvað varðar reglur um hreindýraveiðar, leiðsögumenn með hreindýraveiðum og skiptingu arðs af hreindýraveiðum. Tilgangur breytingarinnar er að gera frekari kröfur til veiðimanna hreindýra, setja skýrari ákvæði varðandi leiðsögumenn og kröfur til þekkingar þeirra. Enn fremur að gera skýrari ákvæði um arðsúthlutun til landeigenda ásamt því að gera auknar kröfur þar að lútandi.

Í frumvarpinu er lagt til að veiðimenn hreindýra hafi staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum áður en þeir fara til hreindýraveiða. Með verklegu skotprófi fæst úr því skorið hvort veiðimaður hafi færni til að fella dýr á réttan hátt og án óþarfa þjáninga, en það er talið mikilvægt með tilliti til dýraverndarsjónarmiða.

Í frumvarpinu er kveðið á um hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum og ber þeim að sjá til þess að veiðar séu í samræmi við lög og reglur. Jafnframt eru í frumvarpinu talin upp þau skilyrði sem umsækjandi um leyfi til leiðsögu með hreindýraveiðum þarf að uppfylla til að geta hlotið leyfið og fengið endurnýjun leyfis. Meðal annars eru gerðar kröfur um að umsækjandi hafi staðist verklegt skotpróf, hafi þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra, hafi sótt námskeið Umhverfisstofnunar og lokið prófum í kjölfar þeirra með fullnægjandi árangri og hafi leiðsagt með hreindýraveiðum undir leiðsögn starfandi leiðsögumanns.

Enn fremur er í frumvarpinu kveðið á um að Umhverfisstofnun haldi námskeið fyrir umsækjendur um leyfi til leiðsögu með hreindýraveiðum og heimild fyrir Umhverfisstofnun að taka gjöld fyrir slík námskeið, verkleg skotpróf og útgáfu og endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn. Setur ráðherra gjaldskrá að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt frumvarpinu verður aðeins heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið. Það er talið nauðsynlegt fyrir fyrirkomulag hreindýraveiða að sem flestir landeigendur leyfi veiðar á landi sínu. Veiðitímabilið er tiltölulega stutt og hreindýrakvóti getur verið stór en með því að hafa allt veiðitímabilið á sem flestum stöðum er hægt að dreifa veiðunum skynsamlega á veiðitímabilinu. Það dregur einnig úr líkum á því að fjöldi veiðimanna sé á sama veiðistað undir lok tímabilsins með tilheyrandi álagi á veiðisvæðum og árekstrum milli hópa, leiðsögumanna og veiðimanna. Enn fremur er talið sanngjarnt að aðeins þeir landeigendur sem leyfa veiðar á landi sínu allt veiðitímabilið fái úthlutað arði.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið hér meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hæstv. umhverfisnefndar.