139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svarið. Ég játa að ég hafði ekki tök á að kynna mér gögn málsins áður en það kom á dagskrá þingsins en mun að sjálfsögðu gera það í umhverfisnefnd. Ég skil þá hæstv. ráðherra sem svo að allvíðtæk sátt sé um þær efnislegu tillögur sem er að finna í viðkomandi frumvarpi. Það er auðvitað til bóta ef svo er og mikilvægt að mál af þessu tagi þar sem hagsmunir margra koma við sögu, bæði staðbundnir, þ.e. sem snerta landeigendur, íbúa fyrir austan og sveitarfélög, og þá sem stunda veiðarnar og vinna við aðstoð við veiðimenn, að reglur af þessu tagi séu afgreiddar í sem bestri og víðtækastri sátt.

Ég vildi að öðru leyti segja að málið hlýtur að fá vandaða umfjöllun í umhverfisnefnd en eins og reglan er verður það vafalaust þannig að því víðtækari sem sáttin er um efnisatriðin því léttari reynist okkur vinnan á þessum vettvangi í þinginu.