139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:29]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurningarnar. Það er nú ekki alveg svo að menn hafi ekki hugsað málin eða útfærsluna með einhverju móti í frumvarpinu en talið var rétt að halda því opnu með hvaða hætti útfærslan yrði. Að sjálfsögðu verður námskeið eða skotpróf haldið víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel það liggja í hlutarins eðli að þau verði haldin þar sem þeirra er þörf og þá væntanlega fyrir austan líka.

Þingmaðurinn spyr jafnframt um leiðsögumannanámskeið hjá Umhverfisstofnun sem er rétt að hafa ekki verið haldin um hríð. En eftir því sem mér er sagt og ég hef verið best upplýst um er á dagskrá hjá Umhverfisstofnun að halda slíkt námskeið fyrir leiðsögumenn á næstu mánuðum, þannig að ég vænti þess að það verði gert.

Þingmaðurinn spyr líka um staðháttapróf. Það er náttúrlega spurning um hvort staðháttaprófin eða prófin sem ný staðsetning útheimtir séu hluti af heildarprófi leiðsögumanna eða hvort þau séu próf sem tekin eru sérstaklega þegar leiðsögumaðurinn hyggst flytja sig milli svæða. Það eru allt saman þættir sem á eftir að útfæra. Ég vænti þess að það verði útfært m.a. með Félagi leiðsögumanna og þeim sem þekkja best til á svæðunum. Það er enginn vilji til annars en gera það þannig.