139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:33]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get svo sem ítrekað það og áréttað við hv. þingmann að leiðsögumannapróf er á dagskrá Umhverfisstofnunar en ég veit ekki nákvæmlega um dagsetninguna. Ég vona að þingmaðurinn virði mér það til vorkunnar að ég sé ekki með dagskrá yfir væntanleg námskeið Umhverfisstofnunar á hraðbergi, en ég vænti þess að það verði okkur báðum létt að leita eftir upplýsingum um það á ágætri heimasíðu stofnunarinnar. Ég vænti þess líka að við deilum þeim meginmarkmiðum og þeirri sýn sem lögð eru til grundvallar þessari lagabreytingu, þ.e. að við nálgumst þetta verkefni eins og aðra umgengni um íslenska náttúru af sífellt meiri fagmennsku.

Ég finn það í ítrekuðum orðum hv. þingmanns að hann ætlar að freista þess að koma mér í umræðu um Vatnajökulsþjóðgarð undir þessari umræðu. (Gripið fram í.) Hann hefur ítrekað haldið því fram að þar hafi samráð verið fyrir borð borið. Ég er ósammála þingmanninum í þeim efnum en við þurfum væntanlega að gefa okkur betri tíma til að ræða þau mál.