139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins.

Frumvörpunum er ætlað að tryggja að reglur íslenskra laga samræmist Árósasamningnum sem gerður var í Árósum í Danmörku 25. júní 1998 og öðlaðist gildi 30. október 2001.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kemur m.a. fram að innleiðingu Árósasamningsins í íslenskan rétt skuli hraðað og nauðsynlegar lagabreytingar kynntar. Til stendur að fullgilda samninginn hér á landi og eru frumvörpin liður í því ferli.

Árósasamningurinn samanstendur af þremur stoðum, þ.e. rétti almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál, rétti almennings til þátttöku um ákvarðanatöku er varðar umhverfið og rétti til aðgangs að réttlátri málsmeðferð vegna ákvarðana er varða umhverfið. Talið hefur verið að Ísland uppfylli kröfur samningsins vegna fyrstu tveggja stoðanna, þ.e. upplýsinganna og þátttökunnar, og með þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram eru ákvæði þriðju stoðarinnar einnig uppfyllt, þ.e. aðgangur að réttlátri málsmeðferð. Með frumvörpunum er ætlunin að tryggja aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum og kveða þau á um að almenningur geti borið ákvarðanir sem varða mikilvæga umhverfishagsmuni undir sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd og þannig leitað virkra úrræða til að tryggja verndarhagsmuni umhverfisins.

Í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins er lagt til að allar stjórnvaldsákvarðanir er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum verði kæranlegar til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Þá er í frumvarpinu lagt til að ákvæðum laga sem fela ráðherra að taka ákvarðanir sem vísað er til hér að framan verði breytt og leyfisveitingarvaldið verði fært til viðeigandi stofnana. Hér er um að ræða breytingu á 21 lögum sem eru á forræði iðnaðarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Meðal þeirra laga sem verið er að breyta má nefna lög um lax- og silungsveiði, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, raforkulög, vatnalög, lög um náttúruvernd, lög um meðhöndlun úrgangs, skipulagslög, mannvirkjalög og lög um mat á umhverfisáhrifum.

Í frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er lagt til að sett verði á fót ný og sjálfstæð úrskurðarnefnd sem fái heitið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og mælir frumvarpið almennt fyrir um hlutverk úrskurðarnefndarinnar, skipan hennar, aðild að kærum til nefndarinnar, málsmeðferð og fleiri atriði er varða starfsemina. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er ætlað að leysa af hólmi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefnd hollustuhátta og mengunarvarna sem verða þar með lagðar niður. Nefndinni er ætlað það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem fyrir er mælt í lögum hverju sinni. Skýrt er kveðið á um að nefndin sé sjálfstæð í störfum sínum. Umhverfisráðherra skipar sjö menn í nefndina, en að jafnaði skulu þrír nefndarmenn eiga sæti í nefndinni þegar fjallað er um mál. Sé mál viðamikið eða fordæmisgefandi skulu nefndarmenn vera fimm. Þá er kveðið á um það nýmæli að fela má formanni nefndar að úrskurða í málum sem eru einföld úrlausnar og varða ekki verulega hagsmuni. Er ákvæðinu ætlað að stuðla að skilvirkni í störfum nefndarinnar, að einfalda og hraða málsmeðferð þar sem það er hægt.

Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skulu kærur til nefndarinnar bornar fram skriflega og á sérstöku eyðublaði. Geta slík eyðublöð stuðlað að betri leiðbeiningum til kærenda. Kærufrestur samkvæmt frumvarpinu verður einn mánuður frá því að kæranda mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Ber nefndinni að úrskurða eins fljótt og kostur er og að meginstefnu til innan þriggja mánaða frá því að öll málsgögn hafa borist stjórnvaldi, en innan sex mánaða sé mál viðamikið.

Þá getur nefndin úrskurðað að kæranda beri að greiða málskostnað sé kæra bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi einum að tefja fyrir framkvæmd.

Eitt mikilvægasta nýmæli frumvarpsins er að aðild að kærum vegna tiltekinna ákvarðana stjórnvalda verður opnuð öllum, þ.e. „actio popularis“ upp á latneska tungu. Í því felst að kærendur þurfa ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Hér getur því verið um að ræða aðild einstaklinga, lögaðila og hvers konar félaga. Þær ákvarðanir sem um er að ræða eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir ýmissa stjórnvalda um að leyfa framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, um að leyfa sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera og að markaðssetja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær.

Að lokum má nefna að samkvæmt 5. gr. frumvarpsins frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur hins vegar krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Úrskurðarnefndin verður í slíkum tilvikum að kveða upp úrskurð um slíkt. Byggja þessi ákvæði á almennum reglum stjórnsýsluréttar. Í ljósi þess að kæruaðild er opin öllum er sérstaklega mikilvægt að gætt sé að efnislegar forsendur liggi að baki kæru þegar ákvörðun er tekin um stöðvun framkvæmda. Sé fallist á stöðvun framkvæmda skal málið sæta flýtimeðferð sé þess krafist af framkvæmdaaðila. Er með því reynt að lágmarka það óhagræði sem stöðvun framkvæmda gæti valdið.

Virðulegur forseti. Ég hef nú rakið meginefni frumvarpanna beggja og legg til að þeim verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.