139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir framsögu hennar í þessum tveimur málum. Það kom fram í máli ráðherrans að nú þyrftu þeir sem huga að því að senda mál fyrir úrskurðarnefndina ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni eins og tíðkast í íslenskum rétti og er það mikil breyting frá því sem var. Venjulega hafa aðilar þurft að sýna fram á að þeir hafi aðild að máli til að gæta hagsmuna sinna en því er verið að breyta með þessu. Má raunverulega segja sem svo að allir geti kært til nefndarinnar. Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af því þegar frumvarpið verður samþykkt að hér opnist flóðgátt og inn flæði kærur frá fólki sem telur sig hafa þótt ekki væri annað en bara skoðanir á umhverfismálum? Þetta snertir breytingar á hátt í 20 lögum þannig að það er úr miklu að velja.

Í 4. gr. greinargerðarinnar segir, og þá er ég að vísa í frumvarp til laga um úrskurðarnefnd, að meginreglan sé sú að aðilar geti fengið leyst úr kæru fyrir nefndinni án þess að þurfa að greiða málskostnað en þó verði heimilt í undantekningartilvikum að úrskurða kæranda til að greiða málskostnað sem mun þá renna í ríkissjóð. Það er rökstutt með því að það sé til að koma í veg fyrir að einhverjar óþarfakærur komi fyrir nefndina. Hvernig á að meta það? Hvaða mælistiku fær nefndin til að ákveða hverjir fá mál sín ókeypis, ef svo má segja, og hverjir ekki? Ef viðkomandi er ekki sáttur og málið fer fyrir dómstóla, (Forseti hringir.) er þá gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti?