139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta snýst að mestu leyti um meginkjarna Árósasamningsins, þ.e. að styrkja réttláta málsmeðferð almennings frammi fyrir ákvörðunum í umhverfismálum og að tryggja að almenningur fái afgreiðslu mála sinna. Ég vil vegna þess undirtóns sem var í andsvari hv. þingmanns geta þess að sérstök áhersla var lögð á það þegar frumvarpið var sett saman að tryggja eftir megni einfaldleika kerfisins. Það er til að mynda gert með því hafa sérstök eyðublöð sem menn geta fyllt út til þess að auka málshraðann og með því að í ákveðnum einfaldari málum geti formaðurinn einn úrskurðað o.s.frv. Það er því allt gert sem hægt er til að auka afgreiðsluhraða mála, þó þannig að það gangi ekki gegn meginmarkmiði Árósasamningsins sem er fyrst og fremst þriðja stoðin sem við erum að innleiða hér, þ.e. réttlát málsmeðferð varðandi ákvarðanir sem varða umhverfið.