139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:56]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að lýsa þessu með jafneinföldum hætti og þingmaðurinn gerir, að við göngum hér lengra en nágrannalöndin, vegna þess að þetta er líka með mjög mismunandi sniði á Norðurlöndum og það er alls ekki þannig að við skerum okkur úr hvað það varðar. Það er rétt sem þingmaðurinn segir, við göngum langt. Við göngum í raun og veru eins lagt og hægt er að því er varðar aðildarspurninguna og hún er víðtækari í frumvarpinu en í samningnum, eins og kemur fram í máli þingmannsins.

Það er nokkuð sem nefndin þarf að taka til skoðunar. Ég hef kannað allvel hvaða samhengi er á milli aðildarinnar og málafjölda eða þess hversu margar kærur berast stjórnvaldinu í málaflokknum. Eftir því sem ég kemst næst, þá vitna ég í ýmsar skýrslur sem gerðar hafa verið á vegum Evrópusambandsins, eru ekki bein tengsl þarna á milli. Það hafa ekki orðið boðaföll, ef svo má segja, af kærumálum vegna opinnar aðildar. Það má segja að menn finni sér alltaf leið til að kæra ef þeir ætla að gera það. Þeir gera það þá með því að verða aðilar að félagi sem þeir hafa jafnvel ekki verið aðilar að áður o.s.frv. Þetta er þá kannski leið til að menn geti lagt fram kæru þar sem þeir standa án þess að þurfa að fara í slíkar æfingar.

Ég vænti þess að nefndin muni skoða þann þátt sérstaklega enda er hann kannski sá þeirra sem lengst gengur efnislega miðað við grundvöll samningsins eins og hann liggur fyrir.