139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þær úthlutanir á kvóta sem hér um ræðir séu svipaðar þeim sem eru í sjávarútvegi og hvort um sé að ræða verðmæti sem er úthlutað sem getur öðlast mikið gildi og mikil verðmæti til framtíðar.

Í öðru lagi vil ég spyrja hvers vegna ekki hafi verið tekinn upp markaður með losunarkvóta á Íslandi hingað til vegna þess að menn geta t.d. verið með neikvæða losun með ræktun á skógi og öðru slíku og svo geri ég ráð fyrir að þeir sem hafa losunarheimildir geti selt þær.

Í þriðja lagi langar mig til að spyrja af því að Ísland er ríkt af hreinni orku — þetta er ríkasta land í heimi alla vega miðað við íbúa — og stærsti hlutinn af henni ónýttur: Getur þetta ekki orðið gífurleg tekjulind fyrir Ísland þegar við förum að framleiða t.d. ál eða reka netþjónabú eða eitthvað slíkt þar sem menn standa frammi fyrir því annars vegar að borga losunarheimildir vegna raforku sem framleidd er með kolum, gasi eða olíu og hins vegar losunarheimildir sem byggja á notkun hreinnar orku til þessarar starfsemi? Eykur þetta ekki enn meira þrýstinginn á Íslendinga að virkja?

Í fjórða lagi vil ég nefna að það kom fram hjá forvera hæstv. ráðherra að Kárahnjúkavirkjun sparaði mannkyninu þvílíkt í mengun, koldíoxíðmengun og hitnun jarðar, sem svaraði til að mig minnir sexfalt í útblæstri Íslendinga af umferð.