139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

548. mál
[15:24]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í kynningu hæstv. forseta er þetta frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

Alþingi hefur nú þegar ályktað, sem hluti af ályktun þingmannanefndarinnar sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þess efnis að á vegum Alþingis skuli fara fram sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnbréf voru gefin frjáls og í kjölfar þess skuli fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna.

Ástæðan fyrir þessu er sú að íslenska sparisjóðakerfið hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika, og það byrjaði jafnvel fyrir hrun með erfiðleikum Sparisjóðs Mýrasýslu og það síðasta sem gerðist var það að ákveðið var að sameina SpKef og Landsbanka Íslands.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er einmitt bent á að rannsóknarnefndin hafi ekki talið það vera sitt verkefni sérstaklega að skoða aðdraganda og orsakir falls sparisjóðanna á Íslandi heldur einbeitti hún sér fyrst og fremst að stóru bönkunum þremur en benti á að nauðsynlegt væri að láta fara fram víðtæka rannsókn á orsökum og aðdraganda falls sparisjóðanna líka.

Hér á þingi hafa verið lagðar fram tvær tillögur til þingsályktunar þannig að það má segja að með ályktun þingmannanefndarinnar hafi verið komið til móts við þær ályktanir. Þegar menn hafa síðan velt því fyrir sér hver sé ástæðan fyrir því að ekki sé þegar búið að leggja fram svona frumvarp, þá frá hendi forseta Alþingis eða meiri hluta Alþingis, hefur því verið svarað til að í þinginu sé verið að vinna að frumvarpi um almenna rammalöggjöf um rannsóknarnefndir.

Ástæðan fyrir því að ég og hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir tókum ákvörðun um að leggja fram þetta frumvarp til laga er sú að við teljum að það henti ekki að bíða eftir því að það frumvarp verði samþykkt. Miðað við frumvarpið eins og það var lagt fram og þær breytingar sem þegar hafa orðið á því teljum við að þær valdheimildir til rannsóknarnefndar sem felast í því séu alls ekki nægar. Við teljum að mörgu leyti einkennilegt — þar sem gert var ráð fyrir því að þegar farið yrði í rannsókn mundi Alþingi álykta sérstaklega um það og tilgreina þá þætti sem ætti að rannsaka og hversu margir ættu að sitja í viðkomandi stjórn eða nefnd. Það má segja að í þessu tilviki séum við þegar búin að álykta. Ályktunin fellur ekki við þann ramma sem frumvarpið um rannsóknarnefnd gerði ráð fyrir og að mínu mati eru alls ekki nægar valdheimildir í frumvarpinu um rannsóknarnefndir, sem ég tel vera nauðsynlegar til að við getum fengið skýra sýn á það sem gerðist með sparisjóðina.

Ef ég renni hratt í gegnum frumvarpið sjálft er í 1. gr. talað um þau verkefni sem nefndinni verða falin:

„a. Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika margra íslenskra sparisjóða, sem leiddu meðal annars til gjaldþrots Sparisjóðs Mýrasýslu, SPRON og Byrs Sparisjóðs og nauðsynlegrar endurfjármögnunar Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis.

b. Meta starfshætti sparisjóðanna á undanförnum árum og varpa ljósi á hverjar séu helstu orsakir mismunandi árangurs rekstrar þeirra. Meðal annars verði fjármögnun og útlánastefna þeirra skoðuð, eignarhald, aukning stofnfjár, greiðslur arðs, kaup og sala stofnfjár, hlutafélagavæðing þeirra sem og aðrir þættir sem kunna að skipta máli.

c. Gera úttekt á lagaramma og öðru starfsumhverfi sparisjóðanna og bera saman við starfsumhverfi sambærilegra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum þannig að við getum lært af niðurstöðu nefndarinnar til framtíðar.

d. Leggja mat á hvernig staðið hafi verið að endurskoðun hjá sparisjóðunum og öðru eftirliti með starfsemi þeirra og kynningu á niðurstöðum þess eftirlits.

e. Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim samfélagslegu og rekstrarlegu forsendum sem þeir voru stofnaðir um.

f. Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld“ — og þetta er nokkuð sem við höfum heyrt mjög mikið kallað eftir úr samfélaginu frá stofnfjáreigendum og öðrum sem hafa orðið fyrir barðinu á falli sparisjóðakerfisins — „fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis, þannig að við getum þá unnið út frá þessum upplýsingum og þeim tillögum sem mundu þá koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Hér er lagt til að skipuð verði þriggja manna nefnd og það verði forseti Alþingis sem leggi fram tillögu um nefndarmenn fyrir forsætisnefnd og að skipan nefndarmanna verði þá samþykkt með auknum meiri hluta atkvæða í forsætisnefnd. Ástæðan fyrir þessu er sú að ég tel að hér séum við að horfa til ákveðinnar fyrirmyndar sem skipan rannsóknarnefndar Alþingis var en algjör samstaða var innan þingsins um það hverjir tækju sæti í henni og ég tel mikilvægt að það vinnulag sé almennt viðhaft þegar tekin er ákvörðun um að skipa rannsóknarnefndir.

Ég ætla aðeins að fara yfir ákvæði sem ég tel að séu sérstaklega í þessum lögum en ekki í þessari almennu rammalöggjöf um rannsóknarnefndir og er raunar helsti rökstuðningurinn fyrir því að setja þurfi sérlög um þetta. Rannsóknarnefndin mundi líka hafa valdheimildir til að kalla einstaklinga til skýrslugjafar þannig að þeir sem kæmu þá fyrir nefndina þyrftu að segja satt og rétt frá. Einstaklingur mundi hins vegar geta skorast undan því að svara spurningum ef ætla mætti að í svari hans gæti falist játning eða bending um að hann hefði framið refsiverðan verknað, eða atriði sem ylli honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Þeir sem mundu þá koma fyrir nefndina mundu þá hafa sambærilega réttarstöðu og réttarstaða vitnis er almennt skilgreind en ekki réttarstöðu grunaðs.

Hér eru líka ákvæði varðandi það hvað eigi að gera ef upplýsingar eru háðar þagnarskyldu. Það eru t.d. reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstakar reglur um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar- og ráðherrafunda sem og fundargerðir nefnda Alþingis.

Það er líka fjallað hér um ákvæði sem varða þagnarskyldu hjá starfsmönnum ríkisins, að hún hvíli á nefndarmönnum og öðrum þeim sem vinna að rannsókninni, til að tryggja að þeir fari sem best með þær upplýsingar sem þeir fá en að sjálfsögðu eiga þeir að birta þær upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar til að geta svarað spurningum með þeim verkefnum sem eru lögð fram í 1. gr.

Síðan er almennt fjallað um hvað eigi að gera ef grunur vaknar um refsiverða háttsemi og tekið á formsatriðum eins og varðandi launakostnað. Að lokum er í 18. gr. fjallað um ákvæði upplýsingalaga og laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau gilda ekki um störf rannsóknarnefndarinnar, en þeir sem rannsókn hefur beinst að njóta samt sem áður réttinda samkvæmt ákvæðum 18. og 21. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og 9. gr. upplýsingalaga að rannsókninni lokinni enda hafi ákæruvaldið ekki tekið mál viðkomandi til meðferðar sem sakamál og fer þá um rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðum laga um meðferð slíkra mála.

Eins og ég sagði er mjög nauðsynlegt að þessi rannsókn fari fram. Það er mjög óþægilegt og nánast óviðunandi fyrir okkur sem sitjum hér á Alþingi að þetta langur tími skuli liðinn frá því að við ályktuðum um að þess háttar rannsókn skyldi fara fram, að við séum enn að bíða eftir því að skipað sé í þessa rannsóknarnefnd. Þá er farið að gefa til kynna, sem ég held að okkur sem samþykktum þessa ályktun falli illa, að annarlegar ástæður séu fyrir því að dregist hafi að fara af stað með þessa rannsókn. Enn er allt of mörgum spurningum ósvarað um það hvað það var nákvæmlega sem olli því að meginþorri sparisjóðanna lenti í þeim erfiðleikum sem þeir lentu í, sérstaklega þegar við horfum til þess að fyrsta fjármálafyrirtækið sem lenti í örðugleikum, fyrir hið svokallaða hrun í október 2008 — mig minnir að strax 2007 hafi legið fyrir að Sparisjóður Mýrasýslu var kominn í mjög mikil vandræði. Þegar til sparisjóðanna var stofnað áttu þeir að sinna hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi, vera í rekstri sem átti að vera áhættulítill en það höfum við svo sannarlega ekki séð í afleiðingum bankahrunsins.

Ég vil mjög gjarnan sjá fjármálafyrirtæki sambærileg sparisjóðunum lifa og dafna á Íslandi til framtíðar en til að svo megi verða verðum við að læra af reynslunni og bæta úr. Það munum við gera með því að samþykkja þetta frumvarp, koma af stað þessari rannsókn og fá þær upplýsingar sem við þurfum til að geta byggt upp til framtíðar.