139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

548. mál
[15:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna og ekki seinna vænna að farið sé að skoða það mál. Þegar við ræddum hina frægu þingsályktun Alþingis, 63:0, var meðal annars kveðið á um rannsókn á stöðu sparisjóðanna og ég var með breytingartillögu á þeim tíma um að farið yrði lengra aftur í tímann. Það vill svo til að ég þekki söguna dálítið hafandi verið í hringiðunni á ákveðnu tímabili.

Saga sparisjóðanna er mjög löng og það væri ekki óverðugt verkefni fyrir einhvern sögumann að kanna hana og fara í gegnum það hverjir voru hvatar að stofnun sparisjóðanna o.s.frv. Ég hef nefnt það hér áður að hvatinn að stofnun SPRON — það er reyndar fyrir nokkru sem ég nefndi það — er sá að ríkisvaldið vildi stöðva flutning á fólki til Reykjavíkur, eða svo segir sagan, með því að banna ríkisbönkunum, sem þá voru beint undir ríkisvaldinu, að lána til húsbygginga í Reykjavík. Iðnaðarmennirnir í Reykjavík undu þessu illa og þeir tóku sig saman og stofnuðu SPRON, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, sem átti að taka við innlánum frá Reykvíkingum og lána til íbúðabygginga í Reykjavík. Þeir lögðu fram ábyrgðir, eins og þá var títt, en ekki stofnfé. Þetta gekk mjög vel og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var lengi vel eingöngu í því að lána til íbúðakaupa og íbúðabygginga í Reykjavík, en það breyttist þegar fram liðu stundir.

Það vill svo til að ég seldi sparisjóðunum 49% í Kaupþingi á sínum tíma og þess vegna þekki ég það dálítið, og þeir komu inn í Kaupþing með mér. Ég átti 51% en ég leyfði þeim að vera með þrjá af fimm stjórnarmönnum, þannig að þeir höfðu stjórnina og ég hafði völdin, eignarhaldið. Samstarfið gekk ágætlega og þeir fengu þarna verðbréfafyrirtæki fyrir ekkert voðalega stóran pening og ég fékk sterka bakhjarla með mér inn í reksturinn, en ég átti fyrirtækið Kaupþing í einar sex vikur einn.

Svo gerist það að mér líst ekki á áhættuna af þessum rekstri því að ég er frekar áhættufælinn og ákvað að selja, 1990 held ég að það hafi verið, og sparisjóðirnir keyptu. Fyrst seldi ég til Búnaðarbankans, það er rétt, og svo keyptu sparisjóðirnir tveimur til þremur árum seinna á tvöföldu því verði sem ég seldi, held ég, þannig að Búnaðarbankinn græddi vel og verði honum að góðu, hann var ríkisbanki, en þá áttu sparisjóðirnir einir Kaupþing.

Þá fara að gerast dálítið skrýtnir hlutir. Þeir stofna Meið, Meiður er forveri Exista, og mjög sterk eignatengsl voru á milli Meiðs, SPRON og Kaupþings. Meiður átti á tímabili 20% í Kaupþingi og Kaupþing átti 40% í Meiði. Ég vil gjarnan að öll sú saga verði rakin. Hvað var að gerast inni í Meiði, þegar Bakkavör kom þar inn, hvernig gerðist það? Var það með láni frá Kaupþingi eða hvernig var það? Allt eru þetta hlutir sem mjög áhugavert væri að kanna því að í þessu kemur í ljós ákveðin veila — menn voru að nýta sér ákveðna veilu í hlutabréfaforminu, sem ég hef ítrekað talað um, og því miður virðist enginn gera sér grillu út af því. Ég tel hins vegar að þessi veila hafi hreinlega verið ástæðan fyrir hruninu, meira og minna, því að á blómatíma sínum átti Exista 20% í Kaupþingi og Kaupþing átti 20% í Exista. Hvort fyrirtæki var metið á þeim tíma á 200 milljarða samkvæmt verði hlutabréfa, þ.e. þau áttu þá 40 milljarða hvort í öðru. Ef þau hefðu keypt eigin bréf hvort af öðru, þ.e. Kaupþing hefði keypt eigin bréf af Exista og Exista hefði keypt eigin bréf af Kaupþingi, hefðu 40 milljarðar horfið hjá hvoru fyrirtæki því að eigin bréf eru verðlaus og 80 milljarðar hefðu horfið út úr efnahagskerfinu. Ef enginn er hugsi yfir því að menn hafi getað búið til 80 milljarða, sem ekki voru til, þá finnst mér gæta ákveðins misskilnings og vanþekkingar. Það hlýtur að vekja menn til umhugsunar að í svona einföldu dæmi eins og Exista og Kaupþingi geti 80 milljarðar horfið með því einu að menn skipti á bréfum, það hlýtur að gera menn hugsi.

Maður hlýtur líka að spyrja að því, og kannski ég haldi áfram með það, sem gerðist hér út og suður, að fyrirtæki mynduðu keðjur, stundum mjög langar, og keðjan beit í skottið á sjálfri sér með því að síðasta félagið keypti í því fyrsta. Svo var eignarhaldið falið á Tortóla eða Lúxemborg, þetta þekkjum við allt. En það virðist enginn ætla að reyna að laga þetta, og ég er orðinn dálítið þreyttur á því og finnst það alveg ótrúlegt. Allir tala um að fá áhættufjármagn og fá einstaklinga til að fjárfesta í hlutabréfum o.s.frv. en átta sig ekki á því að til þess þarf að laga þessa veilu og það verður ekki gert nema með því einu að eignarhald sé allt uppi á borðum og stranglega sé bannað að lána eða kaupa í eiganda sínum, ekki í móðurfélagi eða ömmufélagi heldur í forvera, jafnvel í tíunda lið, því að þeir peningar streyma í hring.

Það sem var einkenni á íslensku atvinnulífi þegar bólan var sem mest var hringstraumur af peningum sem bjuggu til vald og meira að segja arð eða hagnað og bankarnir sýndu geysilega góða afkomu, geysilega gott eigið fé og matsfyrirtækin flöskuðu á því að þarna var veila og ég held að þau hafi ekki enn skilið þetta.

Það er kannski ákveðinn þáttur í þessu sem mætti skoða líka, þ.e. að Fjármálaeftirlitið hafi leyft — það var sagt við stofnfjáreigendur: Þetta er alveg gulltryggt, þetta er nánast sama og innstæða — að eigið fé SPRON byggðist upp á tveimur hlutabréfum, Kaupþingi og Exista, og engu öðru, og að reksturinn hafi verið neikvæður ár eftir ár, hinn eðlilegi rekstur, en hagnaðinum var haldið uppi með verðhækkunum á þessum tveimur hlutabréfum. Þetta benti ég oft á þegar ég var í stjórn SPRON og spurði að því hvenær menn ætluðu að fara að ganga í það að laga reksturinn.

Þetta er ákveðin undirliggjandi veila sem ég vildi gjarnan að yrði könnuð mjög vel í þessari rannsókn og ég styð slíka rannsókn mjög eindregið. En það vantar í þetta nokkur atriði. Það vantar t.d. að geta þess hversu langt aftur eigi að rannsaka sparisjóðina. Ég tel nauðsynlegt að menn fari allt aftur til 1995 til að vera vissir um að ná öllum þáttum og jafnvel aftar ef þörf krefur. Það mætti kannski segja að það þyrfti að bæta við ákvæði um það hversu langt aftur ætti að fara til að skerpa á því að menn þurfi að fara nokkuð langt og mjög langt aftur til þess að komast að rót vandans.

Ég held að ég hafi þetta ekki mikið lengra en ég vildi undirstrika það að veilan í öllu þessu kerfi — og sama veilan kom upp í stóru bönkunum, FL Group átti í Glitni o.s.frv., það verður gaman að teikna það allt upp, það var reyndar gert í rannsóknarskýrslunni en er gjörsamlega óyfirsjáanlegt, það er svo mikið net. Þegar þetta hrundi kom í ljós að það var ekkert inni í þessu. Í erindi sem ríkisskattstjóri hélt kom fram að eigið fé íslenskra fyrirtækja var 7 þúsund milljarðar, minnir mig, í árslok 2007. Þetta eru alveg óskaplega háar tölur, þetta er fjórföld landsframleiðsla. Ári seinna var þetta eigið fé orðið nánast núll. Það hvarf á einu ári. Þetta var birt fyrir framan fjöldann allan af endurskoðendum, þessi tafla hjá ríkisskattstjóra, og enginn var hissa. Hvað varð um allt þetta fé? Ári seinna, í árslok 2009, var það komið í mínus 1.400 milljarða, sem er svipað og landsframleiðslan. Þetta er dálítið eftir minni en stærðirnar eru þær að þetta fór úr fimmfaldri landsframleiðslu niður í núll og svo niður í einfalda landsframleiðslu í mínus.

Mér finnst að menn þurfi að svara þessu: Hvert fór þetta fé? Var það yfirleitt til? Ég fullyrði að þetta fé var ekki til. Og það er einmitt út af þessu krosseignarhaldi, raðeignarhaldi og lánveitingum þvers og kruss sem þetta eigið fé var platað upp.