139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

grunnskólar.

747. mál
[16:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir það frumvarp sem hér er lagt fram. Ég ætla að koma inn á nokkra þætti í því, meðal annars breytingu á lögunum í 1. gr. þar sem mennta- og menningarmálaráðherra er heimilt að setja reglur um hið áralanga deilumál sveitarfélaga er varðar kostnað vegna tímabundinnar vistunar fósturbarna í skólum. Það er nauðsynlegt að fá niðurstöðu í málið þar sem börn sem þurfa slík úrræði þurfa oft aukinn stuðning, eins og kom einmitt fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan, og sveitarfélögin sem taka við þeim bera þá aukinn kostnað. Deilur um kostnaðarskiptingu eiga ekki að koma í veg fyrir að börn njóti þessa úrræðis því að það getur verið lífsspursmál að barn komist í nýtt umhverfi. Því er mikilvægt, virðulegi forseti, að unnið verði heildstætt og í þeirri sátt sem hér er talað um með reglugerð.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur varðandi 2. og 7. lið. Ég hef af því áhyggjur og vona svo sannarlega að hv. menntamálanefnd taki þetta fyrir og skoði eins og boðað var. Ég mundi einmitt vilja sjá að leitað yrði leiða með sambærilegum hætti og í barnaverndarmálum eða öðrum málum þar sem sveitarfélög eru of lítil eða ekki burðug til að sjá um sjálf. Það er líka talað um sérstöðu og það væri ágætt að fá að vita hvers konar sérstaða mundi heimila slíka undanþágu.

Í sambandi við nemendaverndarráð. Sú sem hér stendur starfar í einu slíku og sér ekki fyrir sér að hægt sé að hafa skóla starfandi án þeirra. Ég ber mikla von um að þessu verði fundinn farvegur hjá hv. menntamálanefnd.

Í 4. gr. eru lagðar til breytingar á fækkun á valtíma á unglingastigi grunnskólans úr þriðjungi tíma í fimmtung. Mér þykir það mjög miður þar sem lögin frá 2006 heimiluðu að tími til valgreina yrði aukinn og ég er alveg sannfærð um að það hefur skilað nemendum fjölbreyttara námi. Vissulega er lagt til að skólarnir fái heimild til að hafa valið mismunandi eftir árgöngum og ég held að það hafi verið gert mjög víða í mörg ár án þess að það hafi sérstaklega verið bundið í reglugerð. Mér finnst orka pínulítið tvímælis að minnka valtímann og gefa um leið heimild til að binda það fyrir hönd nemendanna. Ég hef áhyggjur af fjölbreytninni. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig Kennarasambandið hefur rökstutt þetta. Ráðherra getur kannski svarað því. Ég skil forsendur Sambands íslenskra sveitarfélaga og veit að við þetta er aukinn kostnaður eða getur verið það en það er líka víða hægt að koma því þannig við að samstarf sé á milli skóla með fólk til að sinna slíkri þjónustu. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan erum við með mesta valtímann meðal OECD-þjóða. Við eigum að vera stolt af því en ekki draga úr því.

Ég held að það frumvarp sem kom fram um náms- og starfsráðgjafa og lög um þá í grunnskólum landsins geti átt stóran þátt í að gera val markvissara þannig að það sé nemendum til mikilla hagsbóta og að hugsanlega náist líka einhver hagræðing með því.

Auðvitað viljum við öll hafa góðan skólabrag eins og kemur fram í 6. gr. Þar eru skólar skyldaðir til að búa til og móta heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við margs konar ofbeldi. Því miður er þessi þörf til staðar og við heyrum allt of marga einstaklinga segja ljótar sögur af skólagöngu sinni. Gert er ráð fyrir fagráði á vegum ráðuneytisins í eineltismálum til að umgjörðin verði markvissari. Eins og ég sagði áðan viljum við öll hafa góðan og jákvæðan skólabrag. Grunnskólar eru hjarta hvers sveitarfélags og eins og komið var inn á áðan koma allir íbúarnir með einum eða öðrum hætti að grunnskólum.

Talað er um að festa ýmsa þætti í þeirri nýju námskrá sem verið er að vinna að, eins og siðfræði, fjármálalæsi og fleira sem var talið upp, og er það af hinu góða. Við þurfum hins vegar að passa okkur á því að njörva hlutina allt of mikið niður. Við þurfum líka að gefa skólunum tækifæri — eins og reyndar er gert með einhverjum hætti í útfærslunni, að skólar hafi aukna heimild til að útfæra starf sitt.

Eins dapurt og mér þótti að skera þurfti niður fjármagn til framhaldsskóla, þ.e. það sem snýr að réttindum nemenda til að taka einingabært nám í framhaldsskóla, þá fagna ég því að það eigi að virkja það aftur 1. ágúst 2013 og auðvitað hafa framhaldsskólar og grunnskólar heimild til að gera samninga sín á milli kjósi þeir svo til að nemendur geti flýtt fyrir sér með því að taka framhaldsskólaáfanga. Það er mjög mikilvægt eins og kom fram áðan og hefur verið mér afar hugleikið að skil milli skólastiga verði minnkuð eða þau nánast hverfi, renni saman.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom inn á það áðan að nemendur þyrftu að vera í 5. bekk þar sem þeir væru 10 ára og gætu ekki gert neitt annað. Við það búum við. Auðvitað eru til heimildir til að færa nemendur á milli bekkja, þær eru bara mjög sjaldan nýttar. Við í minni sveitarfélögum stöndum kannski frekar frammi fyrir því að nemendur vilji fylgja félögum sínum. Það er ekki fyrr en lengra líður á skólagönguna að skilin verða þessa eðlis á milli nemenda að þeim þyki betra að fá að fylgjast að. En við getum hins vegar með nýrri kennaramenntun breytt þessu svolítið þar sem leikskólakennaramenntunin gengur út á að geta kennt á grunnskólastigi líka. Það vantar hins vegar inn í nýju grunnskólakennaramenntunina að kennarar geti teygt sig upp til fyrstu tveggja áranna í framhaldsskóla. Mér hefði fundist að það ætti að breyta því um leið.

Í 8. gr. er talað um að sveitarfélög skuli gera þjónustusamninga. Það er talað um sjö ár. Mig langar til að vita af hverju það eru sjö ár, hvað liggur þar að baki? Mér finnst ekkert segja mér af hverju sá tími var valinn frekar en einhver annar en þar hlýtur eitthvað að liggja að baki.

Ég vil líka taka undir það sem var sagt áðan um fækkun kennslustunda. Ég er alfarið á móti því og starfandi í skólum vil ég miklu frekar fara í gegnum kjarasamningana. Ég tel að þetta sé sú grunnþjónusta sem við eigum að veita. Ég held að við þurfum líka að huga að því að í tillögunni varðandi fækkun tíma liggja fjöldauppsagnir í kennarastéttinni. Við erum ekki að tala um neitt lítið í því samhengi og ég er ekki alveg viss um að þetta sé tíminn til þess.

Fyrir þau sveitarfélög sem standa ekki vel og þurfa að draga saman mundi ég vilja sjá einhverjar beinar aðgerðir þeim til handa af hálfu ríkisins ef eitthvað er hægt að gera frekar en þetta sé látið yfir alla ganga. Það eru mörg sveitarfélög sem eiga afgangspeninga, m.a. það sem ég kem frá og við viljum ekki skerða skólastarfið í okkar byggð. Þá snýst þetta líka um jafnræði nemenda til náms. Er eðlilegt að skólum sé veitt heimild sem gæti stuðlað að því að skóli í höfuðborginni yrði t.d. styttri en í Grundarfirði? Ég held ekki. Þessi tillaga er ekki vel hugsuð hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, enda hefur ekki náðst um hana sátt. Það snýr ekki að því að ég sé ekki tilbúin til að skoða styttingu skólaársins, það er annað mál. En að gera þetta eins og tillagan segir til um held ég að sé ekki jákvætt og vona að hún nái ekki í gegn.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að það er ekki einfalt að meta forgangsröðun menntunar við úthlutun opinbers fjár, á hvaða sviði menntakerfisins eigi að forgangsraða til að bæta gæði og nýta framlög á skilvirkan hátt. Okkar áskorun er að ná því takmarki þannig að við þurfum ekki að tefla jafnræði þegna okkar og nemenda í tvísýnu. Ég treysti því að hv. menntamálanefnd fari vel yfir þau atriði sem ég hef komið inn á. En frumvarpið er gott og það er margt í því sem hefur góðan brag, sérstaklega varðandi réttindi nemenda og eineltismál og þau mál sem hér hafa verið talin upp sem er kannski orðið löngu tímabært að sinna.