139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða þetta mál í beinu framhaldi af orðaskiptum mínum og hv. þm. Skúla Helgasonar sem talaði fyrir hönd meiri hluta viðskiptanefndar. Það er einhver misskilningur hjá honum að þetta hafi ekki verið rætt í nefndinni því að um leið og frumvarpið kom fram tilkynntum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að við mundum koma með þessa tillögu ef breyta ætti lögum um orkuveituna.

Við höfum flutt þá tillögu sem liggur fyrir sem sjálfstætt frumvarp og eins hefur verið mikil umræða um Orkuveitu Reykjavíkur. Það sjá allir núna sem menn sáu ekki þá að það var óheillaspor að fara þá leið sem þáverandi meiri hluti, R-listinn, fór á sínum tíma en á grundvelli þessarar lagaheimildar, að fara mætti í viðskipta- og fjármálastarfsemi, var farið í fjárfestingar sem valdið hafa fyrirtækinu gríðarlegu tapi og eiga ekkert skylt við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur. Ég hef aðeins verið að blaða í þessu því að fólk er fljótt að gleyma. Um málið voru mjög harkalegar pólitískar deilur og varð ég fyrir miklum árásum fyrir að gagnrýna framgang samfylkingarmanna, vinstri grænna og framsóknarmanna við stjórn fyrirtækisins og var kallaður ýmsum nöfnum í tengslum við það. En menn hefðu betur hlustað og sleppt því að fjárfesta svo milljörðum skipti í alls ótengdum rekstri.

Ég nefndi net- og fjarskiptafyrirtæki, fiskeldi, risarækjueldi, hörverksmiðju og ljósmyndabanka en því miður gleymi ég örugglega ýmsu því að maður þarf að fara í örlitla sagnfræðirannsókn, þó að það sé kannski ekki svo langt síðan þetta var, til að rifja upp alla þá þætti sem málinu tengdust. Sem betur fer kom ég í veg fyrir að orkuveitan fjárfesti í 400 sumarbústöðum í kringum Úlfljótsvatn, eins og hugmyndin var, og sömuleiðis kom ég í veg fyrir að grunnnet Símans væri keypt á 22,5 milljarða kr. árið 2006. Menn geta ímyndað sér hvernig staðan væri ef menn hefðu farið þá leið.

Ef hv. þingmenn meiri hlutans — þeir eru allir farnir úr salnum að undanskildum hv. þm. Kristjáni Möller sem tekur kannski þátt í umræðunni — telja sig ekki hafa nægilegar upplýsingar og ekki hafa rætt tillöguna nægilega mikið er tækifærið núna. Ég held að það sé alveg kjörið að fara yfir þessi mál því að ef það eru einhver rök fyrir því að hafa hlutverk orkuveitunnar það vítt að hægt sé að fara í alls óskyldan rekstur skiptir máli að það komi fram. Ef ekki þá er sjálfgefið að samþykkja tillöguna.

Ég legg til að tillagan fari aftur til viðskiptanefndar á milli umræðna þannig að við höfum þá tækifæri til að fara yfir hana aftur ef einhver hv. þingmaður í viðskiptanefnd telur að málflutningur okkar frá fyrstu mínútu frá því að tillagan kom fyrir nefndina hafi ekki verið nógu skýr og að kalla þurfi eftir einhverjum upplýsingum. Þær liggja allar fyrir og er ekki eftir neinu að bíða að breyta til betri vegar hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að tillagan fari til nefndar milli umræðna og sömuleiðis að ef menn telja eitthvað vera óljóst eða ekki standast hvað varðar tillögugerðina að þeir fari yfir það núna. Við höfum prýðilegan tíma, virðulegi forseti, til að fara yfir þetta stórmál. Þetta er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir Reykvíkinga og alla þá sem njóta þjónustu Orkuveitu Reykjavíkur.