139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

534. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar sem hljóðar þannig:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hefja undirbúning að flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru sendu allir tíu þingmenn Suðurkjördæmis og oddvitar meiri hluta og minni hluta í sveitarstjórnum á Suðurnesjum, áskorun til ríkisstjórnarinnar um að taka ákvörðun um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Þar var hvatt til þess að lokið yrði hið fyrsta við skoðun á kostum þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja og að þær væntingar sem Suðurnesjayfirlýsing ríkisstjórnarinnar vakti um flutninginn næðu fram að ganga.

Umræða um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ hefur staðið um nokkurra missira skeið. Að mati flutningsmanna fylgja fjölmargir kostir því að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin. Slæmt atvinnuástand á svæðinu þrýstir á að öllum ákvörðunum sem tengjast starfsemi þar sé hraðað eins og kostur er. Miklu skiptir að tekin verði ákvörðun og óvissu um framgang málsins verði eytt.

Á Ásbrú er afar heppileg aðstaða fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar til framtíðar. Þar er húsnæði, flugbrautir, góð hafnaraðstaða innan seilingar og stoðkerfi sem fullnægir þörfum Landhelgisgæslunnar að öllu leyti. Stórt og fullkomið flugskýli er á Ásbrú en árið 2000 var það endurnýjað. Njarðvíkurhöfn getur strax tekið við skipaflota Landhelgisgæslunnar. Frá Reykjanesbæ er stutt á aðalstarfssvæði Landhelgisgæslunnar, hafsvæðið í kringum Ísland. Þá má ætla að aukin starfsemi Landhelgisgæslunnar í kjölfar breytinga á starfsemi Varnarmálastofnunar kalli á stærra húsnæði og nálægð við þau tæki og tól sem heyra undir hana.

Með flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes mundi ríkisvaldið sýna í verki stuðning við eflingu atvinnulífs þar auk þess að gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Flutningurinn mundi hafa í för með sér margvísleg samlegðaráhrif vegna verkefna sem Varnarmálastofnun sinnti áður og þarf að sinna á skilgreindu öryggissvæði. Landhelgisgæslan er borgaraleg stofnun sem hefur ein íslenskra stofnana möguleika á því að skapa sér trúverðugleika og traust á þessum vettvangi. Stofnunin er því best til þess fallin að sinna samstarfi við aðrar öryggisstofnanir og hefur af því áratuga reynslu.

Með samþættingu verkefna munu möguleikar Landhelgisgæslunnar til að sinna leit og björgun í samstarfi við nágrannaþjóðir margfaldast. Það hefur háð Landhelgisgæslunni að hafa ekki verið með viðeigandi tengimöguleika sem eru til staðar suður frá á sviði leitar og björgunar, öryggis- og löggæslu og umhverfisverndar og auðlindagæslu við stofnanir nágrannaríkja sem flestar eru sjóherir eða stofnanir á vegum hers.

Flutningur verkefna sem Varnarmálastofnun sinnti til Landhelgisgæslunnar tryggir störf þeirra starfsmanna sem þar eru nú þar sem samlegð við Gæsluna er með þeim hætti að vel fer saman. Ef af þessu verður munu störfin því ekki flytjast til annarra aðila með tilheyrandi fækkun starfa á Suðurnesjum.

Þá skiptir máli að á Suðurnesjum fengi Landhelgisgæslan aðstöðu til að sameina alla starfsemi sína og koma sér fyrir til framtíðar á einum stað. Nú er stofnunin með starfsemina dreifða í leiguhúsnæði á mörgum stöðum. Aðstaða fyrir alla starfsemi Gæslunnar getur verið í byggingum á fyrrum varnarsvæði og þar er landsvæði sem hægt er að laga að þörfum stofnunarinnar.

Möguleikar eru því fyrir hendi til að skapa mun betri aðstöðu en Gæslan býr við á Reykjavíkurflugvelli. Með því að nýta mannvirki undir starfsemi Gæslunnar næðist mikil fjárhagsleg hagræðing fyrir ríkið. Hér má nefna stórt flugskýli en einnig byggingar sem má nýta fyrir flugvélar, þyrlur og viðhald. Auk þess er á svæðinu einkar góð hafnaraðstaða í Njarðvíkurhöfn, Keflavíkurhöfn og Helguvíkurhöfn. Úttekt á nauðsynlegum breytingum á hafnaraðstöðu liggur fyrir.

Landhelgisgæslan er nú þegar með aðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem hún nýtir m.a. fyrir sprengjueyðingarsveitina.

Hætt er við því að um kostnað yrði að ræða en ekki hagræðingu ef einungis núverandi starfsemi Gæslunnar yrði flutt og ekki kæmi til samlegð vegna nýrra verkefna. Því er nauðsynlegt að þau verkefni sem áður heyrðu undir Varnarmálastofnun og verður haldið áfram verði falin Landhelgisgæslunni.

Virðulegi forseti. Flutningsmenn þessarar tillögu eru hv. þm. Suðurkjördæmis Björgvin G. Sigurðsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Atli Gíslason, sú sem hér stendur, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Róbert Marshall, Árni Johnsen og Margrét Tryggvadóttir.