139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

534. mál
[17:42]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er í sjálfu sér fagurt að þingmenn kjördæmisins sameinist í tillöguflutningi um sérstakt atvinnumál og safni um það ýmsum rökum. Það er auðvitað ákaflega hefðbundin aðferð en frá ákveðnu sjónarhorni fögur og örugglega til þess fallin að auka veg þingmannanna í kjördæmi sínu.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa tillögu en tek þó fram eins og áður þegar um þetta var rætt að ég hef efasemdir um þær lausnir á atvinnuvanda í héruðum ýmsum og byggðarlögum að reyna að leysa hann með því að taka stofnun sem niður komin er í Reykjavík og flytja hana á umrætt svæði og láta hana detta þar niður og skapa þar með atvinnu eða það er ætlunin og svo eiga allir að vera ánægðir. Ég hef efasemdir um þetta. Ég vil segja eins og ég sagði þá að ég tel að skilyrði fyrir því að Landhelgisgæslan verði flutt til Reykjanesbæjar eða á Suðurnes er að hagkvæmnin sé hiklaus og óefanleg. Það er auðvitað líka skilyrði þess að gera þetta að talað sé við forustumenn í því sveitarfélagi þar sem Landhelgisgæslan hefur nú miðstöð, tala við sveitarstjórnarmennina, við forustumenn í atvinnufyrirtækjum og forustumenn í verkalýðsfélögum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Það verður líka að hlusta á það sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa um málið að segja og það verður að hlusta á hvað sjómönnum finnst gott í þessu efni. Ég sakna þess að í greinargerð með þessari tillögu er ekkert á þetta minnst, ekki minnst á þessa þætti en safnað ágætlega saman ýmsum rökum, sem ég hvorki kann að taka undir né hrekja, fyrir því að það eigi að efla atvinnu og lífskjör á Suðurnesjum með því að flytja þangað miðstöð Landhelgisgæslunnar.

Nú er í gangi eins og fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns sérstök hagkvæmnikönnun á því hvort þetta sé æskilegt eða ekki, hún er í gangi hjá hæstv. innanríkisráðherra í ráðuneyti hans. Ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni að það hefði verið æskilegt að þessari könnun lyki fyrr þannig að menn geti tekið afstöðu til málsins á þinginu áður en því lýkur eða áður en það fer í sumarfrí. Ég tel nú líkur á að það gerist en þó að seint gangi í innanríkisráðuneytinu að kanna þetta finnst mér nokkuð djarft af þingmönnunum að leggja fram tillögu fyrir salinn um það að Alþingi taki afstöðu til málsins áður en þeirri könnun er lokið. Ég ætla að það séu fleiri en ég sem hafa þá afstöðu til málsins að grundvöllur þess að gera upp hug sinn í því sé að vita mjög nákvæmlega og skýrt um hagkvæmni af þessari aðgerð, hver hún er og hver eru hin félagslegu og atvinnulegu áhrif, ekki bara á þeim stað þar sem stofnunin á að vera heldur líka á þeim stað þaðan sem hún er tekin.

Ég vil svo segja almennt um atvinnumál að það er ekki endilega góð lausn á vanda svæðis sem hér er alveg óefanlegur og skýr að færa atvinnu úr einu héraði í annað eða er ekkert atvinnuleysi í Reykjavík og nágrenni? Er það þannig að á þessu svæði þar sem þingið er niður komið séu engir atvinnuleysingjar, þar séu ekki borgaðar neinar atvinnuleysisbætur, þar sé hugsanlega eftirspurn eftir vinnuafli og allt í lagi að taka vinnustaði þaðan og setja þá niður einhvers annars staðar? Eða eru hinir 10 þingmenn Suðurkjördæmis kannski ekkert að hugleiða þau efni? Er það þannig, forseti, að það eigi hver að hugsa bara um sig hér á þinginu, að á meðan þingmenn Suðurkjördæmis, 10, hugsa um sín atvinnumál eigi þingmenn Reykjavíkur, 22, bara að hugsa um sín? Ég spyr, vegna þess að ekkert er um það fjallað í greinargerðinni hvort eitthvað gerist á höfuðborgarsvæðinu þegar þaðan er tekin þessi stofnun eða aðrar þær sem ýmsir þingmenn hinna svokölluðu landsbyggðarkjördæma hafa látið sér til hugar koma að flytja hver í sitt hérað.

Það er auðvitað þreytandi og leiðinlegt að þurfa að segja þetta í lok þessa ágæta föstudags en svona er þetta nú samt. Og þetta er þeim mun einkennilegra að höfuðborgarsvæðið og Suðurnes hafa oft verið talin í seinni tíð eitt atvinnusvæði með þeim samgöngubótum sem orðið hafa á síðustu áratugum milli þessara svæða, sem raunar voru í gamla daga svo náin að þau voru saman kölluð Suðurnes, nefnilega Innnes það svæði sem við erum á og Útnes það svæði sem nú á að flytja Landhelgisgæsluna á. En kannski er það þannig í raun og veru að hér sé ekki um eitt atvinnusvæði að ræða, að Suðurnesjamenn eða eigum við kannski að kalla þá Útnesjamenn geti ekki sótt vinnu hér á Innnes og ekki Innnesjamenn þangað út eftir. Kannski er það þannig en það hefur þó ekki verið talið þegar forustumönnum á Útnesjum þykir henta. Það var ekki talið þegar forustumenn á Útnesjum buðu höfuðborgarbúum húsnæði í byggðum sínum á þeim forsendum að það væri ódýrt og auðvelt að sækja vinnu inn eftir eða suður eftir eða hvað menn kalla það á þeim bæ.

Ég man eftir því þegar maður fór Keflavíkurveginn fyrir nokkrum árum að þá var þar auk þessa mikla skiltis sem á stendur Reykjanesbær, svo sem eins og í Hollywood-borg, annað skilti, ég man ekki hver talan var en það voru nokkur hundruð íbúðir í smíðum. Voru þær 600 eða 800? Það var sem sé mikill uppgangur á Útnesjum. Það færir okkur náttúrlega til þess vanda sem raunverulegur er og felst m.a. í svona krafta- og sjónhverfingapólitík fyrr og nú á þessu svæði, en vandinn á auðvitað aðrar rætur en þær sem birtast í héraðshöfðingjunum. Hann er raunverulegur, hann á rætur í fortíðinni, á auðvitað rætur í hernum, á rætur í hnignun sjávarútvegs á Útnesjum sem einu sinni hélt þeim uppi. Hann á rætur í félagslegu og lýðfræðilegu svipmóti á svæðinu og hann á rætur í athafnaleysi þar í áratugi, af því að ég minntist á herinn, þar átti allt að leysast með þeim hætti. Það þarf auðvitað sérstakar lausnir á Suðurnesjum. En þær eru ekki svona hókus-pókus lausnir eins og þessi, að taka eina stofnun og fleygja henni til eða taka einhverja milljarða og setja þá einhvers staðar niður, heldur þarf að byggja þarna upp til frambúðar.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál út frá hagsmunum Landhelgisgæslunnar, það hefur hv. þm. Birgir Ármannsson gert ágætlega og ég er sammála honum, a.m.k. við fyrstu sýn, að það sé ekki brýnasti vandi Landhelgisgæslunnar hvar hún er niðurkomin, það séu aðrir hlutir sem þar eru brýnni. En ég held að við eigum að bíða eftir þessari hagkvæmnikönnun frá innanríkisráðherra áður en tekin er afstaða til þessa máls, með fullri virðingu fyrir flutningsmönnunum og auðvitað með algerri virðingu og hluttekningu fyrir þeim á Útnesjum sem nú eru illa staddir. Það verður að vinna svona mál í fullri alvöru, ekki með lausnum sem felast í ruðningi og þrýstingi og hasar og hoppi og híi eins og mér finnst um of að standi á bak við þennan tillöguflutning.