139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það eru mikil öfugmæli að ríkisstjórnin hafi gert allt sem í hennar valdi stendur til að greiða fyrir kjarasamningum, þvert á móti. Svik ríkisstjórnarinnar ítrekað við gefin loforð hafa valdið því að kjaraviðræður eru í algeru uppnámi. Við fáum engin svör um það í þingsal hvað ríkisstjórnin hyggst gera. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í orkumálum? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu? Hvernig stendur á því að nú þegar ríkisstjórnin er orðin tveggja ára gömul fáum við ekki svör við því, þeirri sjálfsögðu spurningu í þingsal, hvað ríkisstjórnin hefur á prjónunum í þeim efnum? Það er fyrir löngu kominn tími til að þessu sé svarað.

Síðan verður að halda því til haga að það er ekki í sjálfu sér fiskveiðistjórnarkerfið sem veldur þeim vanda sem hæstv. ráðherra gerir hér að umtalsefni. Það er skorturinn á hagvexti. Það er skorturinn á forsendum fyrir því að hægt sé að hækka laun. Það er vandinn, hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Aðilar vinnumarkaðarins og sérstaklega atvinnurekendur sjá ekki að fram undan séu þeir tímar (Forseti hringir.) að hægt sé að gera kröfur og hafa uppi væntingar um að hækka launin í landinu. Það er að stórum hluta til á reikning ríkisstjórnarinnar.