139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

eftirlit með skiptastjórum þrotabúa.

[15:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í eitt mál sem ég var spurður um og gat reyndar ekki almennilega svarað og taldi því rétt að leita til hæstv. ráðherra með svör við þeirri spurningu. Hún snýst um það hvaða eftirlit sé í raun með skiptastjórum þrotabúa. Þá er ég ekki að tala um skilanefndir eða slitastjórnir heldur almenn þrotabú sem lögmenn eða aðrir fá í hendur til að skipta og standa skil á og gera upp.

Spurningin lýtur að því hvort einhver fylgist með því að allar eignir skili sér í búið, hvort einhverjir möguleikar séu á því að eignum sé ráðstafað áður en þær koma inn í búið. Nú er sá sem hér stendur ekki neinn sérfræðingur á þessu sviði og leitar því til hæstv. ráðherra um svör við þessu.

Ég geri mér grein fyrir því að þegar búið er að skipa skiptastjóra í þrotabú eru það væntanlega dómarar, héraðsdómur eða Hæstiréttur eða hvernig sem það er, sem hafa þetta eftirlit. En er það þá svo að það eftirlit sé virkt? Er fylgst með þessum búum? Er það þannig með þrotabú sem á eign einhvers staðar úti í heimi að fylgst sé gaumgæfilega með því að hún skili sér til bústjóra með réttum hætti? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvernig eftirliti með þessu sé háttað. Ef það er eitthvað óljóst er nauðsynlegt að varpa því hér upp hvort ekki þurfi þá að setja skýrar reglur varðandi slíkt bú.