139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

orðalag ályktunar sameiginlegrar nefndar Íslands og Evrópuþingsins.

[15:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi þá þætti þessa máls sem snúa að þátttöku Alþingis eða þingmanna í samstarfi finnst mér ekki verið að vísa þeirri spurningu í réttan farveg að beina henni til framkvæmdarvaldsins. Þingið sjálft hlýtur að þurfa að undirbúa það og takast á við hluti eins og með hvaða hætti þeir séu gerðir opinberir og hverjar leikreglurnar eigi að vera í því. En almennt finnst mér að ef þar er á ferðinni eitthvert pólitískt inntak eða efni sem á erindi í opinbera umræðu eigi það að sjálfsögðu að vera svo. Ég þekki ekki þær vinnureglur sem stuðst er við og hlýt að vísa því til þeirra sem með það fara sérstaklega, sem er þá Alþingi sjálft.

Ég mótmæli hins vegar því að allt sem þessi ríkisstjórn geri sé liður í því að koma okkur inn í Evrópusambandið. Það er ekki svo. Alþingi hefur ákveðið að leggja inn umsókn og fara í viðræður við Evrópusambandið. Það mál er í ferli sem við þingmenn þekkjum allir og annað í sjálfu sér ekki um það að segja á þessu stigi mála. Hvað mína afstöðu varðar liggur hún fyrir og ég get bent hv. þingmanni á að lesa nýlega blaðagrein þar sem ég fór yfir stöðuna og þá umræðu sem uppi er í þeim efnum og ég gæti sagt ýmislegt um.

Aðalatriðið er að mér finnst að menn eigi að halda sig við málefnin í þessu tilviki eins og fleirum og ekki segja draugasögur í björtu né heldur sofna á verðinum þar sem ástæða er til að standa á honum.