139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

orðalag ályktunar sameiginlegrar nefndar Íslands og Evrópuþingsins.

[15:20]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að við skulum halda okkur við efni málsins. Það er nú svo að meiri hluti utanríkismálanefndar kom sér saman um vinnulag og verklag sumarið 2009 við það hvernig ætti að standa að aðildarferlinu.

Ég vek athygli á því að þótt hæstv. fjármálaráðherra sé handhafi framkvæmdarvaldsins er hann einnig þingmaður og formaður annars stjórnarflokksins. Hann hlýtur því að hafa sterkar skoðanir á því hvernig á þessu máli skuli halda.

Í ályktuninni sem var til umfjöllunar komu fram alls konar álitamál sem menn hafa deilt um í þinginu alveg frá því að ríkisstjórnin tók við. Þar er t.d. verið að tala um sameiningu ráðuneyta. Það er verið að tala um landbúnaðarmál og slíka hluti. Við lestur ályktunarinnar vakna spurningar um að ferlið sem nú er í gangi sé ekki í samræmi við þann vilja sem meiri hluti Alþingis hafði sumarið 2009 og birtist í nefndaráliti (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi kynnt sér og lesið þá ályktun sem um er að ræða.