139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

launakjör í Landsbanka Íslands.

[15:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ríkið á í gegnum Bankasýslu ríkisins um 80% í Landsbanka Íslands. Þann 28. apríl sl. var aðalfundur hins nýja Landsbanka. Þar kom fram í máli formanns bankastjórnar að samkeppnishæfni um starfsfólk í fjármálageiranum væri ekki nógu vel tryggð í Landsbankanum og því yrði að koma á fót sérstöku hvatakerfi innan bankans. Gekk formaður bankaráðs svo langt að segja að hann teldi að um brýna nauðsyn væri að ræða að koma hvatakerfinu á. Á aðalfundinum var samþykkt ný kjarastefna í kjölfar þessara orða.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Ætlar hann sem fjármálaráðherra að sætta sig við að ríkisbankinn sjálfur gangi fram með þessum hætti, sér í lagi í ljósi þess að hér eru í gildi lög, sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram, um að enginn eigi að hafa hærri laun en hún sjálf?

Á fundinum kom einnig fram að Landsbankinn ætti tvö félög og mundi stefna að því að setja þau fljótlega á markað. Mig langar því að hafa þetta spurningu númer tvö til hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða félög eru þetta? Getur hann upplýst þing og þjóð um það?

Í þriðja lagi: Á fundinum var ákveðið að NBI hf. yrði lagt niður og Landsbankinn hf. yrði lögheiti á nýja bankanum héðan í frá, sem er eitt ónýtasta vörumerki í Evrópu og þó víðar væri leitað. Spurningin er: Hvers vegna er lögð svona mikil áhersla á að taka upp Landsbankanafnið á ný, hæstv. fjármálaráðherra?