139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

launakjör í Landsbanka Íslands.

[15:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi orð. Það er að skilja á hæstv. fjármálaráðherra að hann sé á móti þessari boðuðu stefnu um kaupauka í Landsbankanum þar sem um ríkisbanka er að ræða. Það sem hann segir um hófsemi og annað er rétt, það er ágætissiður að gæta hófsemi en mér finnst skrýtið í því tilliti að hæstv. fjármálaráðherra veit ekki hvaða tvö félög Landsbankinn á og ætlar að setja á markað. Er ekki rétt að sá aðili sem fer með hlutabréfið í bankanum fyrir framkvæmdarvaldið viti hvaða félög er um að ræða?

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í lokin, vegna þess að nú er Landsbankinn búinn að marka þá stefnu sem hæstv. fjármálaráðherra kannast ekki við, að taka eigi upp kaupaukakerfi: Stendur til að selja Landsbankann? Stendur til að renna honum saman við einhverjar aðrar bankastofnanir eða hvar er málið raunverulega statt (Forseti hringir.) þar sem bankastjórnin talar í suður og hæstv. fjármálaráðherra í norður?