139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

launakjör í Landsbanka Íslands.

[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er einfaldlega svo, varðandi það t.d. að Landsbankinn ákveði að skrá tvö félög í sinni eigu í kauphöll, að hann getur gert það nákvæmlega jafnóbundinn af mér og af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Það er ekki seinna vænna fyrir hv. þingmann að átta sig á því að Alþingi sjálft gekk þannig frá málum að Bankasýslan fer með eignarhaldið fyrir hönd ríkisins í bönkum og sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum sem ríkið á aðild að og fjármálaráðherra er bannað að hafa þar bein afskipti af. Ég hvorki á né má skipta mér af einstökum ákvörðunum í rekstri Landsbankans og vonandi vill hv. þingmaður ekki að farið sé út á þá braut.

Það er því um þetta búið og með það farið nákvæmlega eins og Alþingi sjálft ákvað að skyldi gert. Eigendastefnan lýsir því hins vegar til hvers er ætlast af þeim sem fara með eignarhaldið fyrir hönd ríkisins og eftir henni ber að fara (Forseti hringir.) og sé út af því brugðið er tekið á því.

Varðandi sölu á Landsbankanum er ekkert slíkt á dagskrá sem stendur og engin áform hafa verið mótuð um það að ríkið dragi úr eignarhlut sínum í bankanum, (Forseti hringir.) þeim sem nú er, þ.e. þau 81% sem ríkið heldur.