139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál var einmitt unnið á þann veg að það var mjög stór og fjölmenn sáttanefnd, 20 manna eða rúmlega það, sem vann að þessu máli í heilt ár eða meira og náði samkomulagi um ákveðnar meginlínur sem síðan gengu til þess ráðherra sem með málið fer. Á hans forræði hefur verið unnið að útfærslum, tæknilegum útfærslum og lagasmíð eins og hefðbundið er. Síðan kemur auðvitað frumvarp fram á þingi og þar með opnast umræðan og allir fá aðgang að því. Þetta er mjög hefðbundinn farvegur þegar verið er að undirbúa mál til framlagningar á Alþingi og ekki mikið um það að segja.

Sá ráðherra sem með málið fer og þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa, og ætla að bera pólitíska ábyrgð á framlagningu frumvarpsins sem stjórnarfrumvarps, verða auðvitað að geta haft málið í sínum höndum þegar verið er að klára samkomulag um það hvernig það lítur út. Þannig er það. Það má alveg viðurkenna að það hefði verið æskilegt að þessi vinna hefði gengið hraðar þannig að minni tími hefði tapast en betra er seint en aldrei. Við skulum sannarlega trúa því að á þessu þingi, innan ekki mjög langs tíma, komið málið fram.