139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Sumarið 2009 spurði sá sem hér stendur þáverandi samgönguráðherra um arðsemi framkvæmda og forgangsröðun. Þá voru Vaðlaheiðargöng talin vera með arðsemi upp á um 7% en Suðurlandsvegur um 21% eða 26%. Þá töldu menn eðlilegri forgangsröðun að fara fyrst í það verkefni sem mest arðsemi væri í, þar sem hæst slysatíðni væri og, hæstv. fjármálaráðherra, menn greiða sannarlega fyrir að aka um þann veg og langt umfram það sem kannski góðu hófi gegnir með núverandi skattlagningu.

Um leið og ég gleðst að sjálfsögðu yfir þeim framkvæmdum að á morgun verði útboð á Vaðlaheiðargöngum og að framkvæmdir fari af stað hvet ég hæstv. innanríkisráðherra til þeirra dáða að setja framkvæmdir í gang á fleiri stöðum á landinu. Það er rétt eins og kom fram hjá hv. þm. (Forseti hringir.) Kristjáni L. Möller, það er skynsamlegt á samdráttartímum að fara í framkvæmdir á vegum hins opinbera.