139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hv. þm. Kristján Möller, sem situr í stjórn hlutafélagsins Greiðrar leiðar, sem er að framkvæma þarna, og er fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra, sagði að ríkið ætti að fara í framkvæmdir á svona tímum. Það er rétt, en ríkið er ekki að fara í framkvæmdir. Þetta er nefnilega látið líta út eins og þetta sé eitthvert einkahlutafélag sem er að fara í framkvæmdir en það fær lán með ríkisábyrgð. Ef þetta skyldi ganga með hagnaði heldur hlutafélagið hagnaðinum en ef það skyldi verða tap situr fjármálaráðherra uppi með það.