139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

rannsókn efnahagsbrota o.fl.

767. mál
[16:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kem sannast sagna ekki auga á að ummæli mín séu á nokkurn hátt ankannaleg nema menn vilji snúa út úr þeim og skilja þau á annan veg en þau augljóslega eru meint. Ég er að tala um það hlutverk sem ráðherra og framkvæmdarvaldið hefur í þessum efnum sem lýtur að lagarammanum, sem lýtur að stjórnsýslunni, sem lýtur að fjárveitingum til þeirra embætta sem í hlut eiga og einvörðungu það.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kvaddi sér hljóðs og spurði mig hvort ég teldi að Sjálfstæðisflokkurinn væri hlynntur glæpum. Þetta er mjög óvenjuleg spurning í þinginu en ég get svarað honum að ég tel svo (Gripið fram í.) að sjálfsögðu ekki vera og tel mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson lagði áherslu á í máli sínu, að um þessar rannsóknir sé breið þverpólitísk samstaða allra flokka, að við sameinumst í því efni. Ég hef engar efasemdir um að svo hafi verið og verði, en það er ekkert óeðlilegt að þegar Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir því að lýsa vantrausti á ríkisstjórn og lætur greiða um það atkvæði til að reyna að koma ríkisstjórninni frá rísi einstakir ráðherrar upp til varnar sínum störfum og málaflokkum. Það gerði ég og það er ekkert ankannalegt við það.