139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér í lokaumræðu um lokafjárlög árið 2009 sem er dálítið sérkennilegt í maímánuði 2011. Í hv. fjárlaganefnd hefur mikið verið rætt um að þessum hlutum verði að breyta því við erum núna að loka árinu 2009. Og lokafjárlög ársins 2009 eru í raun og veru eins konar fjáraukalög fyrir það ár. Ég sé að núna eru margir hv. þingmenn í salnum, þannig hefur það nú ekki verið áður við umræðu um fjáraukalögin og ég vonast því til að þeir muni margir hverjir taka þátt í umræðunni því hér er verið að færa til tugi milljarða. Tugi milljarða. Margir hv. þingmenn hafa sagt að þegar færa þarf til einhverja hundraðþúsundkalla þá tali margir. Núna er verið að tala um tugi milljarða.

Í raun og veru eru lokafjárlögin ekkert annað en þingskjal með ríkisreikningi. Ekkert annað. Lokafjárlög eru til þess að hægt sé að staðfesta ríkisreikning. Nú er það þannig, eins og svo oft áður, að lokafjárlög á ríkisreikningi stemma ekki. Það munar 2,7 milljörðum. Samt eru lokafjárlög einungis þingskjal með ríkisreikningi.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ef ekki verður tekið fastar á þessum málum hjá ríkinu, þ.e. ríkisútgjöldunum, sem ég held að allir hv. þingmenn séu sammála um að sé kannski stærsta verkefnið sem þarf að leysa í þessu þjóðfélagi, munum við aldrei — aldrei — ná tökum á ríkisfjármálum. Aldrei. Það er persónuleg skoðun mín. Þetta er ekki flóknara en það.

Í lokafjárlögum 2009 eru framkvæmdir ákveðnir hlutir og mig langar að nefna tvo sérstaklega. Hér er í raun og veru verið að búa til lokafjárlög eftir að búið er að ráðstafa peningunum, eða aukafjáraukalög réttara sagt. Hvað getur Alþingi í raun og veru gert? Búið er að ráðstafa peningunum og ekkert er hægt að gera. Samt sem áður er hér úthlutað upp undir nokkur hundruð milljónum til ákveðinna stofnana í þjóðfélaginu. Ég stórefast um að margir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því. Mig langar að nefna tvö dæmi sérstaklega en dæmin eru mörg. Samþykki Alþingi þessi lokafjárlög — en varla er hægt að gera neitt annað þó svo ég ætli að sitja hjá við þau — er til að mynda verið að gefa Hafrannsóknastofnun heimild til að auka útgjöld á milli áranna 2008 og 2009 um 300 milljónir og þeim er þegar búið að eyða. Hvers konar fjármálastjórn og rekstrarstjórn er það eiginlega hjá ríkissjóði þegar einstaka stofnanir geta fengið leyfi fyrir að ráðstafa næstum 300 milljónum þegar búið er að eyða þeim? Heldur einhver heilvita maður að þannig sé hægt að ná tökum á ríkissjóði? Á sama tíma og Hafrannsóknastofnun fær, með samþykkt þessa plaggs, heimild til að auka útgjöldin um 15,4% á milli áranna 2008 og 2009 er verið að skera niður á sjúkrastofnunum út um allt land og tala um þessa blessuðu kynjuðu hagstjórn sem ég hef eiginlega óbeit á, og reka konur út af vinnustöðunum. Á sama tíma er verið að gera nákvæmlega svona hluti.

Ég segi það aftur, virðulegi forseti, að ég tel — ég tel, ég ætla ekki að fullyrða það — að margir hv. þingmenn geri sér nefnilega ekki grein fyrir því hvað í raun og veru er verið að gera þegar lokafjárlög eru samþykkt. Til hvers er þingið að eyða vikum og mánuðum í fjárlög? Framkvæmdarvaldið byrjar snemma árs að leggja drög að fjárlögum. Til hvers er verið að gera það? Ég bara spyr. Það hefur ekkert upp á sig ef svona hlutir fá að viðgangast, akkúrat ekki neitt, vegna þess að sumar stofnanir á vegum ríkisins hafa nánast óheft aðgengi að sértekjum.

Ég ætla að halda mig við þessa ákveðnu stofnun en það má ekki skilja orð mín þannig að ég sé að segja að hún hafi ekki þörf fyrir fjármagn eins og allar aðrar, ég er ekki að því, heldur vil ég draga fram hvernig fjármálastjórnin er í raun og veru hjá ríkinu. Hún er algjörlega úti á túni. Aldrei munu nást tök á ríkisfjármálunum ef menn breyta þessu ekki.

Hér samþykkjum við í lok árs 2009, nei, 2008, það var annað þing sem gerði það. Það skiptir ekki máli. (BirgJ: Þetta er búið að vera svona alla tíð.) Alla tíð, kallar hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fram. Það getur verið alveg hárrétt hjá hv. þingmanni en núna verðum við að bregðast við og breyta þessu. Það ætla ég að segja við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur: Ég er búinn að lesa mörg fjárlög eftir að ég tók sæti í fjárlaganefnd. Vinnan hefur verið þannig í gegnum tíðina, eins og hv þingmaður bendir réttilega á, að þegar við vorum í uppsveiflu voru til að mynda áætluð útgjöld ríkisins 400 milljarðar, svo ég noti einhverja tölu. Síðan áttu tekjurnar að verða 430 milljarðar. Síðan urðu útgjöldin óvart 430 milljarðar en í uppsveiflunni í hagkerfinu urðu tekjurnar líka 30 milljörðum hærri. Þannig að agaleysið í ríkisfjármálum er og hefur verið algjört. En þessu verðum (Gripið fram í.) við að breyta núna í niðursveiflunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þeir hv. þingmenn sem munu samþykkja þetta eru í raun og veru í mjög sérkennilegri stöðu vegna þess að það er búið að ráðstafa peningunum. Alþingi hefur ekkert um það að segja fyrr en einu og hálfu ári eftir að það er gert. Er það vilji hv. Alþingis að auka til að mynda við stofnanir um nokkur hundruð milljónir á sama tíma og þarf að skera niður í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu? Þar eru engar sértekjur. Viljum við gera það núna á þessum tímum? Ekki ég, alls ekki.

Það grátbroslega við dæmið sem ég tek er að Hafrannsóknastofnun hefur tekjur sem eru sértekjur og koma aðallega frá svokölluðum AVS-afla, eða Hafró-afla sem kallaður er, og svo netarallinu. Þess vegna aukast tekjur Hafrannsóknastofnunar um 300 milljónir á milli ára. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að sjálfsögðu að ráðgjöfin um hvað megi veiða er vitlaus. Það segir sig algjörlega sjálft.

Í sambandi við þær heilbrigðisstofnanir sem ég nefndi áðan þá eru engar sértekjur í velferðarþjónustunni. Þess vegna verður að hætta að tala um að breyta og breyta því. Ég er búinn að segja það alveg frá því að ég kom fyrst inn á þing. Það verður að binda hverja einustu stofnun á fjárlög, þ.e. hver ákvörðun Alþingis um rekstur viðkomandi stofnana er burt séð frá því hvort þær hafi sértekjur eða ekki. Það getur ekki gengið að ákveðin stofnun komi eftir á og fái að auka útgjöldin um 15,4% þegar búið er að eyða peningunum. Það er algjörlega galið. Það er grátbroslegt ef maður tekur dæmi um hinn svokallaðan AVS-sjóð, eða Verkefnasjóð sjávarútvegsins, þá var heimildin frá Alþingi sú að ráðstafa mátti 200 milljónum úr sjóðnum. Hver er síðan niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að Verkefnasjóður sjávarútvegsins fékk heimild til ársins 2009 að ráðstafa rúmum 200 milljónum — það var vilji Alþingis þegar fjárlög voru samþykkt — en síðan ráðstafar sjóðurinn 400 milljónum. Ég bara spyr: Er eitthvert réttlæti í þessu? Það er ekkert réttlæti í þessu.

Það er ágætt að rifjað það aðeins upp fyrir hv. vinstri velferðarstjórn, eins og hún kallar sig þó að engin verk sanni að hún sé það, að á sama tíma og við fórum yfir lokafjárlög ársins 2009 eða við fjárlögin 2010 var fyrsta verk velferðarstjórnarinnar á þingi að skerða ellilífeyrisþega og öryrkja um 7 milljarða. Það var gert. Síðan árið 2010 þegar við fórum í gegnum fjárlögin, ekki tóku margir þátt í þeirri umræðu, þá var nefnilega verið að rétta af ríkisreikninginn vegna þess að skerðingin sem var ákveðin á Alþingi var nefnilega ekki 7 milljarðar á öryrkja og aldraða heldur 11 milljarðar. Aðgerð ríkisins sem átti að skila 7 milljörðum skilaði nefnilega 11 milljarða afgangi í ríkissjóð miðað við það sem gert var ráð fyrir. Á sama tíma og lagðar eru fram tillögur og meiri hluti Alþingis samþykkir að skerða ellilífeyrisþega og öryrkja um 11 milljarða fá menn að eyða peningum langt umfram vilja Alþingis. Auðvitað fjallar þetta um afstöðu þingsins til reksturs viðkomandi stofnana, sama hvað þær heita.

Þess vegna segi ég enn og aftur — ábyggilega búinn að segja það hundrað sinnum úr þessum ræðustól: Það verður að breyta fjárlagagerð ríkisins þannig að hver einasta stofnun verði innan ákveðins ramma og hafi hann til þess að eyða og ekkert annað. Það verður að gerast. Þá kemur í ljós vilji þingsins til þess hvernig viðkomandi rekstur eigi að vera.

Það er líka dálítið merkilegt að skoða hvaða stofnanir hafa sértekjur vegna þess að þær eru teknar úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Hafrannsóknastofnun er undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og verkefnasjóðurinn er undir sama ráðuneyti og vilji þingsins er að láta í það ákveðna fjármuni, en síðan færir sjóður innan sama ráðuneytis tekjur á milli. Sama ráðuneyti eykur útgjöld um 15,4% á niðurskurðartímum. Er þetta velferðin? Ég bara spyr. Þess vegna verður að breyta þessu, líka vegna þess að þetta er svo ósanngjarnt. Það kemur líka fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar. Þetta er ekkert annað en fjáraukalög eins og þau virka, nema hvað búið er að eyða peningunum. Það skiptir engu máli hvaða skoðun þingið hefur á því. Það eina sem við á hv. Alþingi gætum hugsanlega gert væri að segja að nú vildum við draga seglin enn frekar saman og skerða þá árið 2012. Það er í rauninni það eina sem hægt er að gera.

Það er líka athyglisvert og ég hvet þá vinstri sinnuðu þingmenn sem þykjast kenna sig við velferð og það allt saman að skoða og rifja upp hvað afleiðingar það hefur haft sem búið er að gerast í ríkisrekstrinum. Hvað er búið að gerast? Sumar stofnanir sem hafa framkvæmdir á borðum sínum skera bara niður í framkvæmdum. Þær segja engum upp í sinni stjórnsýslu eða neitt. Ég hef nefnt þær sumar. En aðrar hafa ekki sértekjur, til að mynda heilbrigðisstofnanir. Þær verða því að segja upp. Þær hafa engin önnur úrræði. Hvað kom svo í ljós? Auðvitað kom það sem var margbúið að benda á í ljós og var mjög skuggalegt, að af þeim 540 stöðugildum sem var fækkað um voru 470 konur. Það er í raun og veru framkvæmdin. Það er ekki sama það sem gert er og sagt er. Þessu verður að breyta. Það er engin sanngirni í því að reka konur út af heilbrigðisstofnunum og láta svo aðrar stofnanir komast upp með að eyða nokkur hundruð milljónum fram yfir heimild í rekstri sínum. Því verður að breyta. Aðrar stofnanir geta skorið niður í framkvæmdum. Þær þurfa ekkert að laga til á skrifstofunum, í stjórnsýslunni, í yfirmannakjarnanum eða neinu svoleiðis. Nei, þær skera bara niður framkvæmdir og svo eru þær eins og áður. Þessu verður að breyta. Ég deili alla vega ekki skoðun með þeim sem hafa talað þannig. Þeir eiga samúð mína mesta. Það sást best í þeirri aðför sem var gerð að heilbrigðisstofnunum.

Það var dálítið merkilegt í óundirbúnum fyrirspurnum áðan þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði í andsvari við hv. þm. Margréti Tryggvadóttur: Að sjálfsögðu leggur ríkisstjórnin fram frumvarp sem hún ætlar sér að gangi. Þá langar mig að rifja upp það sem gerðist síðastliðið haust þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, sem var hrein og klár aðför að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þá hlupu margir hæstv. ráðherrar til og könnuðust ekki við það, höfðu varla séð það áður og margir hv. þingmenn hlupu svoleiðis til fjalla að það sást undir iljarnar á þeim og hafa aldrei skilið neitt í því hvernig þetta var gert, þótt það hefði verið skýrt í þingflokkunum og engar athugasemdir verið gerðar þar, a.m.k. upplýsti hv. þm. Árni Þór Sigurðsson að það hefði ekki verið gert í hans þingflokki. Menn könnuðust ekki við það.

Það er mikilvægt að menn fari að breyta þessum rekstri því að öðruvísi náum við aldrei tökum á honum — aldrei — með neinum réttlátum hætti. Það er svo mikilvægt að því agaleysi sem hefur verið í ríkisfjármálunum linni.

Síðan er annað sem kemur fram í þessum lokafjárlögum. Það eru þær ábyrgðir sem verið er að veita. Það er búið að gefa út ábyrgðir fyrir nokkra tugi eða hundruð milljarða. Það er rosalega erfitt að hafa yfirsýn yfir hvernig það er gert. Það er mjög sérstakt að ræða lokafjárlögin fyrir árið 2009 sérstaklega án þess að ræða um ríkisreikning 2009. Það er hins vegar órofa samstaða um það í hv. fjárlaganefnd að nefndin skili skýrslu um ríkisreikninginn. Ríkisendurskoðun gerir mjög margar og alvarlegar athugasemdir við ríkisreikning 2009. Að því er hv. fjárlaganefnd að vinna núna og ætlar sér að breyta vinnubrögðunum. Ég fagna því að undir öruggri stjórn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur ætli fjárlaganefnd að skila inn skýrslu til umræðu í þinginu en ekki á lokuðum fundi hjá nefndinni. Sú skýrsla verður rædd hér og farið yfir hana. Þá getum við sagt hvað okkur finnst um það sem er að gerast og hverju við viljum breyta.

Eitt sem mig langar að nefna í lok ræðu minnar eru mjög alvarlegar athugasemdir um hvernig þær heimildir sem menn vísa í hafa verið nýttar, eins og til að mynda þegar sett var 11,6 milljarða fjárveiting eða eiginfjárframlag inn í Sjóvá. Við fáum enn þau svör að Ríkisendurskoðun geri alvarlegar athugasemdir við það hvar fjármálaráðuneytið eða hæstv. fjármálaráðherra hafi fengið til þess heimild. Síðan fara menn inn á grátt svæði, að mínu mati, og vísa þá til neyðarlaga. Það held ég reyndar að sé dálítið torsótt og á gráu svæði, a.m.k. ljósgráu. En eigi að síður sitjum við uppi með alvarleikann við það sem verið er að gera. Það kemur mjög vel fram.

Ég vænti þess að almennileg umræða verði um skýrsluna þegar hv. fjárlaganefnd skilar henni inn í þingið því að í henni eru eins og ég segi mjög margar alvarlegar athugasemdir. Það hefur verið litið þannig á í allri umræðunni að það sé það sem breytist í þessum lokafjárlögum. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því. Þetta hefur verið túlkað sem pólitísk yfirlýsing. Það má lesa í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem vakti athygli á því fyrir mörgum vikum þegar hann spurði hvað þetta þýddi í raun og veru. Svar hæstv. fjármálaráðherra var, með leyfi forseta, svo ég vitni orðrétt í hann:

„Innstæðurnar eru annars eðlis og hv. þingmaðurinn hlýtur að þekkja það vegna þess að margbúið er að ræða það hér á þingi, alveg frá því í október, nóvember 2008. Þar er um pólitíska stefnumarkandi yfirlýsingu stjórnvalda að ræða, ekki ríkisábyrgð í skilningnum ríkisábyrgðarlög eða annað í þeim dúr.“

Þetta var svar hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Þegar við samþykkjum lokafjárlög 2009 erum við akkúrat að gera virkar nokkrar tuga milljarða ábyrgðir af þessum yfirlýsingum. Hvaða þýðingu hefur það fyrir framhaldið? Ég átta mig ekki alveg á því en það gæti haft þá þýðingu að við séum búin að setja pósitíft ákvæði um ríkisábyrgð upp á tugi milljarða. Staðan er því miður sú. Við yfirtökum til að mynda innstæður í banka erlendis. Um það hefur ekkert verið fjallað eða mjög lítið en það kemur reyndar skýrt fram í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta fjárlaganefndar. Miðað við alla umræðuna sem fór í Icesave-málið hefur lítið verið fjallað um þetta. Við það eru gerðar athugasemdir af hálfu Ríkisendurskoðunar og sagt að þessa hluti verði að skoða betur. Það er því margt sem við verðum að breyta.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að umræðan um lokafjárlög 2009 er galin — það sjá allir. Þess vegna segi ég: Við munum aldrei ná tökum á ríkisútgjöldunum við núverandi aðstæður. Ég tel reyndar að hæstv. ríkisstjórn sé mesta fyrirstaðan í því, en hvað um það. Við munum aldrei ná tökum á ríkisfjármálunum ef við afgreiðum ríkisreikning og lokafjárlög fyrir árið 2009 í maí 2011. Hvernig eigum við að skynja reksturinn á ríkissjóði? Þetta er algerlega „fatalt“ ef við breytum ekki vinnubrögðunum, að menn skuli mæla fyrir lokafjárlögum 2009 í mars 2011 er fáránlegt. Þessu verður að breyta. Ef við breytum því ekki þá mun þetta þing væntanlega samþykkja ein lokafjárlög enn, þ.e. fyrir árið 2010. Það munum við væntanlega gera um mitt ár 2012. Síðan koma kosningar í síðasta lagi 2013 og þá efast ég um að við klárum árið 2011, enda var það eitt af verkefnum þessa þings að samþykkja lokafjárlög á miðju ári 2009 fyrir árið 2007. Hv. þingmenn hljóta að sjá hversu fáránleg þessi vinnubrögð eru í raun og veru og þeim verður að breyta.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að segja meira í þessari umræðu en að ég bind miklar vonir við þá samstöðu sem er í hv. fjárlaganefnd um að breyta. Ég segi líka að ekki er nóg að tala um hlutina, það verður að gera þá. Það er enginn ágreiningur á milli neinna hv. þingmanna í fjárlaganefnd um að breyta vinnubrögðunum. Nú höfum við tækifæri til þess.

Það er líka annað sem ég vil taka upp, það eru skýru skilaboðin til okkar í fjárlaganefnd — þau eru reyndar kurteislega orðuð, bæði af hálfu Ríkisendurskoðunar og starfsmanna fjármálaráðuneytisins: Fjárlaganefnd hefur eftirlitshlutverk fyrir hönd Alþingis. Það er ykkar skylda að koma upplýsingunum til þingsins — því að í fjárlaganefnd sitja einungis 11 þingmenn — og ábendingum og breytingum til framkvæmda og því sem þið viljið láta skoða í þingsal til þess að allir hv. þingmenn sitji við sama borð og fái þær upplýsingar sem fram koma. Þess vegna bind ég mjög miklar vonir við þá samstöðu sem er í hv. fjárlaganefnd og við þá skýrslu sem verið er að vinna og á að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning.

Það sem við erum að fjalla um, lokafjárlög 2009, er bara þingskjal, ekkert annað. Við verðum að breyta vinnubrögðunum þannig að skýr vilji þingsins komi fram um hvert umfang viðkomandi stofnana eigi að vera, hvernig við ætlumst til að reksturinn sé og til að við lærum af því sem við sjáum svo glöggt — skorið niður í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu, níðst á ellilífeyrisþegum og öryrkjum, sem hafa engar aðstæður til að gera neitt annað, en síðan hafa ákveðnar stofnanir sértekjur og gera bara nákvæmlega það sem þeim dettur í hug, nánast.

Eftir á að hyggja er verið að samþykkja aukafjárveitingu eða fjáraukalög sem er löngu búið að eyða. Ég segi fyrir mína parta, virðulegi forseti: Ef þessu verður ekki breytt sé ég ekki mikinn tilgang í því að hv. þingmenn rífist dögum og vikum saman um fjárlög sem er nánast ekkert farið eftir nema að litlum hluta, því sem snýr að útgjaldahliðinni. Auðvitað er það sem snýr að tekjuhliðinni allt annað mál, en það er aðallega útgjaldahliðin sem ég vek athygli á. Eins vil ég líka að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að það er búið að setja pósitíft ákvæði um ríkisábyrgðir gagnvart þessu. Það er mjög alvarlegur hlutur að mínu mati og þarf að skoða sérstaklega. Það verður gert og kemur væntanlega fram í skýrslu hv. fjárlaganefndar um ríkisreikning.

Vinnubrögðunum verður að breyta. Öðruvísi munum við aldrei ná tökum á fjármálum ríkisins heldur halda áfram á þeirri braut sem við erum á núna, að reka fólk sem er á lágum tekjum af Landspítalanum og heilbrigðisstofnunum úti á landi en láta aðra sem eru í kerfinu með sértekjur leika lausum hala eins og þeir hafa gert hingað til. En því verður að breyta.