139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir andsvarið eða meðsvarið réttara sagt. Þar kemur bara skýrt fram, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að það eiga ekki að vera neinir andstæðingar í þessu, þetta er bara sameiginlegt markmið okkar allra sem sitjum á hv. Alþingi að koma ríkisfjármálunum í eðlilegt og heilbrigt horf. Það er ekki eðlilegt hvernig staðið er að þessu í dag, það er algjörlega óeðlilegt hvernig þetta er framkvæmt. Það er svo mikið óréttlæti, finnst mér, þegar Alþingi tekur ákvörðun um hver skuli vera fjárveiting til viðkomandi stofnunar og búið að marka það — svo geta menn deilt um pólitíska stefnu, hvort það eigi að skera meira niður í einum málaflokki eða öðrum málaflokki, látum það liggja á milli hluta — en svo virkar þetta í raun og veru þannig, og það kemur mjög skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um lokafjárlög, að lokafjárlögin eru ekkert annað en síðbúin fjáraukalög sem stuðla að — svo ég reyni að muna þetta orðrétt — ekki nægilega góðri fjármálastjórn hjá ríkinu. Þetta stendur nánast orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ef þessu verði ekki breytt muni ekki verða góð fjármálastjórn hjá ríkinu, sem er svo mikilvægt á þeim tímum sem við lifum núna.

Öll þekkjum við það að á uppgangstímum fá menn oft og tíðum meiri tekjur en menn áætluðu og það getur í raun og veru virkað þannig, þó að það eigi aldrei að vera, að menn þurfi þá ekki að fara í eins miklar aðgerðir. Núna stefnir til að mynda halli ríkissjóðs í eða er núna áætlaður 37 milljarðar. Við eigum eftir að setja 15 til 18 milljarða í Íbúðalánasjóð, við eigum eftir að setja fé í Byggðastofnun, við eigum eftir að setja í hitt og þetta og alla vega. Svo sagði hæstv. menntamálaráðherra núna að hún ætlaði að setja 7 milljarða í skólana, það á að setja 3 milljarða hérna o.s.frv. Hvernig ætla menn að ná tökum á þessu? Það er engin umræða um þetta í þinginu, það er bara hvað mönnum dettur í hug. Fjárlagahallinn stefnir í (Forseti hringir.) 60, 70, 80 eða jafnvel 100 milljarða. (Forseti hringir.) Hvernig ætlar fólk að ná tökum á því?