139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlakka líka til samstarfsins og get upplýst hv. þingmann um það að í hv. fjárlaganefnd er verið að vinna þetta á breiðum grunni. Það er ekki nein stjórn eða stjórnarandstaða, það eru allir að vinna þetta. En við verðum líka að vera gagnrýnin á okkur sjálf í hv. fjárlaganefnd, ég minni á að við ætluðum að vera búin að breyta þessu, við töluðum um það í fyrra að breyta þessu fyrir þetta ár, en við erum ekki búin að því. Ég ítreka því það sem ég sagði í ræðu minni áðan: Það er ekki nóg að tala, það verður líka að framkvæma. Við verðum að taka það sem mjög alvarlega áminningu til okkar í nefndinni að við töluðum um það í fyrra að breyta þessu fyrir þetta ár en gerðum það ekki, það var ekki gert. Þess vegna verður hv. fjárlaganefnd að standa undir því að skila þessari skýrslu inn til þingsins sem er jú fyrsta skrefið til að breyta vinnubrögðum til að við getum þá fetað okkur inn á þær brautir að ná tökunum og vera sanngjörn gagnvart því sem Alþingi áætlar að gera. Ekki mun standa á mér, hér eftir sem hingað til, að leggja mitt af mörkum til að sú vinna gangi vel.