139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[17:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Írisi Róbertsdóttur fyrir andsvarið. Ég ætla nú að hafa þetta stutt. Ég tel að það sé okkur í lófa lagið. Grundvöllur þess er hins vegar sá að fjármálastjórar í stofnunum og ráðuneytum færi bókhaldið á hverjum degi, að það sé klárt í lok mánaðarins. Það er kominn þannig tæknibúnaður alls staðar, eftir því sem ég best veit, að það ætti ekki að vera vandamál. Þetta hefur verið gert á sviði sveitarstjórna í landinu á liðnum árum. Það var ekki þannig í öllum sveitarfélögum fyrir fimm eða tíu árum en ég held að þetta sé nánast undantekningarlaust þannig í dag, meðal annars vegna þess að þingið hefur sett harðari reglur en líka vegna þess að menn læra að eina leiðin til að stjórna fjárútgjöldum er að vita í hvað er eytt og hvenær búið er að eyða of miklu. Ég held því að þetta sé bæði nauðsynlegt fyrir ríkisvaldið og okkur í lófa lagið. Ég býst við, eins og við höfum talað úr allflestum flokkum hér í dag, að ekki ættu að vera mikil vandræði að gera þetta.