139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir um hálfu ári, held ég, var blásið til mikils blaðamannafundar á vegum ríkisstjórnarinnar á Suðurnesjum. Þar voru kynntar tillögur í atvinnumálum svæðisins, en eins og við vitum er staðan einna verst á Suðurnesjum hvað varðar atvinnuleysi. Í tillögunum var sú hugmynd að flytja Landhelgisgæsluna á Suðurnes sem vakti hvað mesta athygli og var innanríkisráðherra falið að vinna athugun á hagkvæmni flutningsins. Það hefur svo sem komið fram að innanríkisráðherra virtist ekkert vera neitt ofsalega spenntur yfir þessu verkefni. Það leið og beið þar til niðurstöðurnar komu og nú liggur fyrir stutt minnisblað frá Deloitte um flutninginn.

Fyrirsögnin á vef innanríkisráðuneytisins var „Aukinn rekstrarkostnaður Landhelgisgæslunnar við flutning til Suðurnesja“ og talað um að allt að 700 milljónir mundu bætast við árlega ef aðsetur hennar yrði flutt til Suðurnesja. Ráðherra lýsti því svo yfir eftir fund með ríkisstjórninni að Gæslan yrði ekki flutt í bráð vegna mikils kostnaðar og flutningur væri ekki skynsamleg ráðstöfun til skamms tíma litið.

Ég verð að segja að þetta urðu mér mikil vonbrigði, þessar niðurstöður og viðbrögð ráðherrans. Í þessu stutta minnisblaði frá Deloitte voru miklir fyrirvarar við niðurstöðurnar. Þeir sem hafa skoðað minnisblaðið hafa séð að það er alls ekki verið að bera saman sambærilega hluti. Það er verið að bera saman epli og appelsínu eða eins og kom fram í nýlegri ályktun Reykjanesbæjar er verið að bera saman fyrirkomulag áhugamannaliðs við fyrirkomulag og rekstur atvinnumannaliðs.

Ég hef því mikinn áhuga á að heyra frá hv. þm. Róberti Marshall hver hans viðbrögð séu eiginlega við þessum yfirlýsingum frá innanríkisráðherra og við minnisblaðinu. Hvað telur hv. þingmaður að sé best að gera? (Forseti hringir.) Ættum við kannski að taka í útrétta hönd Suðurnesjamanna og vinna þetta verkefni almennilega eins og lagt var upp með í upphafi?