139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er engin leynd og ekkert pukur. Tveir fundir hafa verið haldnir í þessari nefnd, (Gripið fram í.) sá fyrsti var haldinn í október sl. og sá sem þingmaðurinn talaði um var haldinn í síðustu viku. Venjan er sú í svona nefndum að skipst sé á, einn fundur sé í umsóknarlandi og annar í húsakynnum Evrópuþingsins. Samkomulag varð í nefndinni í haust um að halda vorfundinn hér á landi og þess vegna voru tveir fundir haldnir hvor á eftir öðrum. Fundirnir eru opnir, það er alveg ljóst. Fundirnir eru þess vegna haldnir í Þjóðmenningarhúsinu til að það sé pláss fyrir gesti. (SKK: Af hverju var þá engum boðið?)

Þegar fyrsti fundur var haldinn var það auglýst. Þar voru einhverjir blaðamenn og þar fram eftir götunum. Mér var kunnugt um einn áheyranda sem ég veit að spurðist fyrir um það hvort hann gæti sótt fundinn nú og honum var sagt að vissulega gæti hann gert það, en ég veit svo sem ekki hvort hann var þar.

Það er hins vegar alveg hárrétt og ég get fallist á það að auðvitað hefði átt að auglýsa þetta betur. (Gripið fram í.) En þetta er birt á vef Alþingis. Þetta er opinn fundur, það er ekkert pukur. En alltaf má betur gera og í framtíðinni mun það ekki fara fram hjá neinum þegar þessir fundir verða haldnir. Hér var ekkert pukur og engin leynd enda segir í starfsreglum að fundirnir eigi að vera opnir.

Ég vil líka benda á að á vef Alþingis er að finna starfsreglur nefndarinnar. Þar er frásögn af fundinum 5. ágúst sl. og þar er einnig ályktun sem samþykkt var á þeim fundi. Og ég vil geta þess að næsti fundur í nefndinni verður væntanlega haldinn í Brussel frekar en í Strassborg (Forseti hringir.) í fyrstu eða annarri viku október næstkomandi.