139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fjalla um Evrópusambandið og það sem rætt var fyrir nokkrum mínútum eða sekúndum, þ.e. þessa ályktun sem átti að gera á sameiginlegum fundi þingmannanefndar Evrópusambandsins og Íslands. Ég verð að segja, og ætla ekki að draga neitt úr því, að eflaust hefði ég mátt kynna mér þetta fyrr og betur en fram kom á endanum. Það segir okkur líka að við þingmenn þurfum heldur betur að vara okkur og hysja upp um okkur í eftirliti með því ferli öllu sem er í gangi þegar við verðum vör við ályktanir sem þessar sem á að samþykkja í þessari nefnd sem yfirlýsingu fyrir hönd Íslands og Evrópusambandsins.

Það er alveg hárrétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar áðan um landbúnaðarkaflann, en það er svo margt annað í þessari ályktun sem undirstrikar það sem við höfum mörg hver oft haldið fram í þessum ræðustól að verið er að laga Ísland að Evrópusambandinu, smám saman er verið að færa okkur inn í það batterí; og það sést berlega í þessari ályktun ef hún er lesin gaumgæfilega.

Ég vil því, frú forseti, velta því upp hvort Alþingi þurfi ekki að setjast aðeins yfir þau vinnubrögð og vinnureglur sem eru varðandi þessar svokölluðu viðræður, hvort við þurfum ekki að velta því upp hvort ekki eigi að taka svokallað rýnifundi upp á band og hafa þá aðgengilega á netinu þannig að unnt sé að fylgjast með slíkum viðræðum (Gripið fram í: Þeir eru það.) — þeir eru það ekki, hv. þingmaður, samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið — hvort við eigum ekki að opinbera minnisblöð sem fara á milli utanríkisráðuneytisins og nefndarinnar o.s.frv. Ég fæ ekki betur séð en að það ferli sem lagt var af stað með sé allt annað en samþykkt var að fara út í.