139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir með þeim þingmönnum sem gagnrýnt hafa þann sameiginlega þingmannafund sem fór fram í síðustu viku. Í 6. gr. starfsreglna þeirrar nefndar kemur fram að þessir fundir skuli haldnir opinberlega. Til fundarins var ekki boðaður einn einasti fjölmiðill né var þetta auglýst með öðrum hætti þannig að almenningur gæti komið og hlustað á hvað fór fram, enda virðist það vera aðalmarkmiðið með þessum fundum að Evrópusambandið segi Íslendingum fyrir verkum, það er alveg ljóst. Það er komið með tilbúna pappíra beint frá Brussel hingað heim og upp á þetta áttu þingmennirnir að kvitta.

Sem betur fer standa íslenskir þingmenn sig vel í þessari baráttu, baráttu Evrópusambandsins við að koma okkur inn í sambandið. Það er löngu ljóst, og það sannaðist á þessum fundi, að ekki er um neinar aðildarviðræður að ræða heldur hreint og klárt aðlögunarferli.

Það hefur verið farið yfir það hvaða áherslur eru lagðar þarna. Það er Greiðslustofnun landbúnaðarins, það eru 20/20 þingsályktunartillagan sem var samþykkt. Það kemur í ljós á þessum fundi að hún var og er hluti af þessu aðlögunarferli en Samfylkingin hefur sem dæmi hingað til neitað því að þetta sé nokkuð skylt. Mikil leyndarhyggja er yfir þessu öllu. Við erum að verja sjávarútveginn og auðlindir okkar allra.

Frú forseti. Ég er með lausn á þessu máli og sú lausn hefur legið fyrir nokkuð lengi í þinginu. Í utanríkismálanefnd situr föst þingsályktunartillaga mín og fleiri þingmanna um að þjóðin fái að greiða atkvæði um það hvort halda skuli áfram eða ekki. Nú hef ég lagt fram tvær breytingartillögur og nú stendur sú breytingartillaga þannig að atkvæðagreiðslan skuli fara fram eigi síðar en 1. september.