139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það gleður mig sérstaklega að hér komi þingmaður og vilji ræða um þessar Evrópuviðræður, sem ég tel mjög mikilvægar, án útúrsnúnings. Ég ætla hins vegar að byrja á að svara fyrstu spurningunni neitandi, ég tel ekki rétt að festa dagsetningu um hvenær samningaviðræðum eigi að ljúka. Ég held að það sé ekki alveg rétt, sem þingmaðurinn heldur fram, að það sé alfarið á hendi Íslendinga hvenær þeim lýkur. Hinar eiginlegu samningaviðræður hafa í raun ekki byrjað eins og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni er fullkunnugt um. Hinar eiginlegu viðræður munu vonandi hefjast í lok júní þegar einhverjir kaflar, eins og kallað er, verða opnaðir á ríkjaráðstefnu sem þá verður haldin.

Þingmaðurinn spyr hvort ég sé ekki sammála því að nefnd í þinginu eigi að fylgjast með þessu. Jú, ég er hjartanlega sammála því. Og það er nefnd í þinginu sem fylgist með þessu, hún heitir utanríkismálanefnd. Í henni er sérstakur starfshópur sem fylgist sérstaklega með. Af því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lýsti því yfir áðan að hann væri óhress með að fá ekki upplýsingar frá rýnihópum vil ég geta þess að hann situr iðulega fundi í utanríkismálanefnd og hefur, held ég, verið á fundum um rýnivinnuna þar sem við fáum öll plögg sem rýninefndirnar leggja fyrir. Þau eru öll opinber daginn sem rýnifundurinn hefur verið haldinn. Á rýnifundina er að minnsta kosti oftast (Forseti hringir.) hægt að horfa á vef utanríkisráðuneytisins þó að þeir séu hugsanlega ekki til á bandi.