139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:31]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég finn mig knúna til að blanda mér í umræður um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Ekki ætla ég að fjalla um þær furður hvort þingmannafundurinn hafi verið opinn eða lokaður, það liggur allt fyrir og því hefur verið svarað. Það er rétt að ítreka að aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru opnasta, gegnsæjasta aðildarferli sem nokkru sinni hefur farið fram hjá umsóknarríki. Það er því ágætt að hv. þingmenn kynni sér þau gögn sem liggja fyrir og fylgist með fundunum, hvort sem það eru rýnifundir eða aðrir fundir, og nýti sér allar leiðir sem ábyrgir þingmenn í opnu samfélagi og á hinu háa Alþingi hljóta að gera til þess að vera inni í öllum smáatriðum aðildarviðræðnanna.

Varðandi aðlögunina mun þjóðin auðvitað taka þá ákvörðun að lokum. Eins og allir vita þurfa að liggja fyrir einhvers konar áætlanir um hvernig eigi að taka yfir þá hluta laga Evrópusambandsins sem við höfum ekki gert nú þegar. Ef af því verður, ef þjóðin segir já, hefst hin svokallaða aðlögun, þ.e. ef þjóðin ætlar okkur að verða aðildarríki.

Vegna umræðunnar um landbúnaðinn og að nú sé því öllu stýrt frá Brussel langar mig að benda hv. þingmönnum Framsóknarflokksins á að fara ekki langt yfir skammt, þeir þurfa ekki að fara til Brussel. Þeir geta alveg haldið sig í Reykjavík og lesið skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu landbúnaðarkerfisins á Íslandi. Þar kemur fram mikil gagnrýni á þá uppsetningu og tillögur um breytingar sem þarf að gera, algjörlega óháð því hvort Ísland verður einhvern tíma (Forseti hringir.) aðildarríki (Gripið fram í.) að Evrópusambandinu. Þannig að í öllum bænum, frú forseti, menn kynni sér málið.