139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:54]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal geta þess að ég lagði áherslu á það í óformlegum viðræðum við forseta Alþingis að frumvarp innanríkisráðherra yrði að lögum, þ.e. 1. gr. í þeim ákvæðum. Við héldum síðan fund í saksóknarnefnd fyrir páska og ræddum þetta. Á þann fund kom saksóknari Alþingis sem við erum til ráðuneytis fyrir. Frumvarpið var síðan alfarið eins og það lítur út og hér er flutt samið af saksóknarnefnd í samráði við forseta þingsins og starfsmenn þingsins. Þannig að það komu engir að þessu, það voru engin óeðlileg viðbrögð við þetta. Saksóknarnefndin er eingöngu að sinna sinni lögbundnu skyldu samkvæmt landsdómslögum. Það voru því engir aðrir með puttana í þessu ef ég má orða það svo. Frumkvæðið kom fyrst með bréfi frá saksóknarnefnd til forseta Alþingis, það komu viðbrögð strax eftir páska um það og frumvarpið var samið af nefndinni eins og ég sagði í samráði við forseta Alþingis og starfsmenn þingsins.