139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:55]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég skildi hv. þingmann þannig að við undirbúning þessa máls hefði saksóknarnefnd haft samráð við saksóknara Alþingis og saksóknari Alþingis hafi þá í undirbúningsferli málsins haft einhverja aðkomu að málinu á fundum sínum með nefndinni. Það er mikilvægt að þetta komi fram og það sé þá upplýst að við saksóknara hafi verið haft samráð. Ég þakka fyrir svörin hvað það varðar.

Mig langar síðan til að spyrja hv. þingmann að því hver sé ástæðan fyrir því að flutt er sérstakt frumvarp nú þegar fyrir liggur frumvarp frá hæstv. innanríkisráðherra sem er hvað varðar 1. gr. þess frumvarps að nokkru leyti (Forseti hringir.) samhljóða því frumvarpi sem hér er rætt. Hefði ekki dugað að klára það mál eins og það lá fyrir?