139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi seinni spurninguna er fyrst til að taka að það var mín skoðun og fleiri sem komu að málinu að 1. gr. frumvarps hæstv. innanríkisráðherra væri ófullnægjandi. Þess vegna var greinin endursamin og er í þeirri mynd sem hún er nú í.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að saksóknarnefndinni er ætlað lögum samkvæmt að vera saksóknara Alþingis til halds og trausts, ekki um ákæruútgáfu, málsástæður, lagarök eða praktísk atriði eða neitt slíkt en til halds og trausts almennt séð. Nefndin hefur haft það vinnulag á síðan hún var skipuð að hitta og eiga fundi með saksóknara Alþingis mánaðarlega. Það er ósköp eðlilegt miðað við hlutverk nefndarinnar á vegum Alþingis gagnvart saksóknara Alþingis. Þessir fundir hafa verið haldnir fyrst í desember og síðan í febrúar, mars og apríl.